Ham hitar upp fyrir Rammstein

Ham skipa þeir Flosi Þorgeirsson, S. Björn Blöndal, Sigurjón Kjartansson, ...
Ham skipa þeir Flosi Þorgeirsson, S. Björn Blöndal, Sigurjón Kjartansson, Arnar Geir Ómarsson og Óttarr Proppé. Ljósmynd/Marinó Thorlacius

Íslenska rokksveitin Ham mun hita upp kollega sína í þýsku rokksveitinni Rammstein á tónleikum þeirrar síðarnefndu í Kórnum í Kópavogi á laugardaginn, að sögn skipuleggjanda tónleikanna, Þorsteins Stephensen. Ham hitaði einnig upp fyrir Rammstein á margfrægum tvennum tónleikum þýsku sveitarinnar í Laugardalshöll árið 2001.

Breiðskífa er væntanlega frá Ham í næsta mánuði og nefnist hún Söngvar um helvíti mannanna. Eitt lag af plötunni hefur ómað í útvarpi í nokkrar vikur, „Vestur-Berlín“, og má af því heyra að hljómsveitin er í feikigóðu formi. Fyrir tónleika Rammstein mun Ham leika nokkur glæný lög af plötunni í bland við gömul. 

Uppselt er á tónleika Rammstein í Kórnum núna á laugardaginn og er áætlað að 16.000 manns sæki þá.