Brúðulegar Lolitur í grasagarði

AFP

Lolita er í Japan tengd ímynd þess krúttlega. Hello Kitty, lítil, sæt kisa í teiknimyndasögu varð innblástur tísku sem ekkert á sameiginlegt með þeirri Lolitu sem þekkist á Vesturlöndum.

Á Vesturlöndum hefur Lolita kynferðislega skírskotun vegna samnefndrar og afar umdeildrar skáldsögu Vladimirs Nabokovs frá árinu 1955. Sagan fjallar um miðaldra prófessor í bókmenntum, sem fær kynferðislegar langanir til tólf ára stjúpdóttur sinnar. Svokölluð Lolitu-tíska sem greip um sig sem hálfgert æði í Japan á tíunda áratug liðinnar aldar er á allt annarri blaðsíðu í allt annarri bók. Hún hefur enga tengingu við Lolitu hans Nabokovs eftir því sem næst verður komist.

Lolitu-tískan mun þvert á móti eiga rætur í dálæti Japana á Hello Kitty, krúttlegri, lítilli kisu í teiknimyndasögu, sem kom fram á sjónarsviðið árið 1974 og er núna heimsþekkt vörumerki. Í japanskri menningu vísar Lolita til þess sem er krúttlegt, glæsilegt og lítillátt en ekki tælandi á neinn hátt.

AFP

Eins og postulínsbrúður

Lolitur þessar eru auðþekkjanlegar vegna þess að í bleiku eða pastellituðu flíkunum sínum, pífupilsunum og með skrautlegu höfuðfötin, borðana alla og blúndurnar minna þær mest á stórar, gamaldags postulínsbrúður í sínu fínasta pússi.

Lolitu-tískan náði ekki aðeins fótfestu í Japan heldur drap víða niður fæti á Vesturlöndum í ýmsum útfærslum og nýtur enn töluverðra vinsælda í sumum hópum. Fyrirbærið er yfirleitt skilgreint sem götutíska í Japan, en jaðartíska víðast hvar annars staðar.

Dæmi eru um að ungar konur, sem alla jafna eru ósköp venjulegar til fara, klæði sig upp sem Lolitur að japönskum hætti við sérstök tækifæri. Þær voru að minnsta kosti nokkrar sem skrýddust Lolitu-múnderingu á hinni árlegu Sakura Matsuri-hátíð, sem haldin var í grasagarðinum í Brooklyn í New York um mánaðamótin.

AFP

Þjóðartákn Japana

Á þessum árstíma, blómgunartíma kirsuberjatrésins – sakura á japönsku – eru sakura-hátíðir haldnar víðsvegar um Bandaríkin japanskri menningu til dýrðar.

Kirsuberjatréð er nokkurs konar þjóðartákn Japans og í miklum hávegum haft þar í landi. Trén, sem eru af ættkvíslinni Prunus, eru enda forkunnarfögur, sérstaklega þegar þau standa í sínum bleika blóma.

Garðurinn í Brooklyn státar af fjölda kirsuberjatrjáa og laðar fyrrnefnd hátíð að þúsundir gesta ár hvert.

Eins og sést á myndunum eru Loliturnar sem mættu á hátíðina hver annarri brúðulegri. Flestar eru hefðbundnar Lolitur, ef svo má segja, klæddar og farðaðar eins og algengasta Lolitan – þessi sæta, sem var fyrst til að öðlast vinsældir. Síðan gat hún af sér goth-Lolitu, pönk-Lolitu, sígilda-Lolitu og einhverjar fleiri.

AFP