Fékk gagnrýni fyrir holdafar sitt og svaraði

Sarah Hyland er búin að eiga erfitt ár.
Sarah Hyland er búin að eiga erfitt ár. mbl.is/AFP

Modern Family-stjörnunni Sarah Hyland var nóg boðið á miðvikudaginn og lét fólk heyra það eftir að hafa verið gagnrýnd fyrir holdafar sitt og að sýna átröskun í jákvæðu ljósi. 

„Mig langar að ræða eitthvað sem ekki aðeins hefur komið upp á Twitter heldur líka verið mikið rætt meðal ykkar allra í Instagram-athugasemdum. Þetta eitthvað er þyngdin mín,“ skrifaði leikkonan. „Ég legg það ekki í vana minn að gera athugasemdir við svona hluti af því það dregur athygli að þeim sem eru að breiða út neikvæðni en ég er hér til að útskýra nokkra hluti og deila ást.“

Hyland sagði meðal annars að hún hafi ekki átt frábært ár og hún hafi þurft að vera rúmliggjandi síðustu mánuði sem gerði það að verkum að vöðvar hennar hafa rýrnað töluvert. Hyland sagði jafnframt að hún stjórnaði ekki hvernig líkami hennar liti út. 

Hyland gaf ekki út nákvæmari ástæðu að þessu sinni en leikkonan hefur áður glímt við veikindi. Samkvæmt Page six fór hún til að mynda í nýrnaígræðslu árið 2012. 

mbl.is