Helga vill senda Ragnari áritaða bók í jólagjöf

Helga Lind Mar tjáir sig um viðhorf til kvenna.
Helga Lind Mar tjáir sig um viðhorf til kvenna.

Mikil umræða hefur skapast í samfélaginu eftir að Ragnar Önundarson gagnrýndi mynd sem alþingiskonan Áslaug Arna notaði sem forsíðumynd á Facebook. Helga Lind Mar óskar nú eftir heimilisfangi Ragnars þar sem hana langar til þess að senda honum áritað eintak af bókinni Ég er drusla í jólagjöf. 

Þetta segir hún í lok stöðufærslu sinnar á Facebook þar sem hún birti mynd af sér uppi í rúmi á nærfötunum. Myndin var tekin fyrir áður nefnda bók en Helga hefur tekið þátt í að skipuleggja druslugönguna. 

Helga segir meðal annars í stöðufærslu sinni að myndatakan hafi verið stórt skref fyrir sig þar sem það hafi tekið langan tíma fyrir hana að sætta sig við líkama sinn. 

„Afhverju er ég að birta hana núna hér? Jú afþví að ennþá er fólk að gagnrýna útlit annarra og hvernig það kýs að sýna sjálft sig. Fólk stundar ennþá að gengisfella skoðanir annarra bara afþví að það fylgir ekki reglum karllægs samfélags um hvað má og má ekki,“ segir Helga á Facebook sem krefst þess að myndin verði ekki notuð til þess að gera lítið úr henni eða skoðunum hennar í framtíðinni. 

mbl.is