Menningarmálaráðherra Noregs lofar að finna peninga

Alexander Rybak heilsar fjölmiðlum við komuna til Lissabon 6. maí. …
Alexander Rybak heilsar fjölmiðlum við komuna til Lissabon 6. maí. Setur hann norska ríkisútvarpið á hausinn vorið 2019? AFP

„Mér sýndist við glansa á prufunni fyrir dómnefndirnar og ég er stoltur af því hvernig við skiluðum þessu, þetta er góð byrjun,“ sagði fiðluleikarinn knái frá Hvíta-Rússlandi, Alexander Rybak, við norska ríkisútvarpið NRK eftir allsherjarprufuna fyrir aðrar undanrásir Eurovision í Lissabon í Portúgal í dag en þetta er í annað skiptið sem Rybak heldur utan með vonir Norðmanna í vasanum. Í fyrra skiptið lagðist hann í víking sem Norðmenn gleyma seint og stóð uppi sem sigurvegari í Eurovision í Moskvu vorið 2009 með lag sitt Álfasögu, eða Fairytale.

Rybak hefur glímt við veikindi síðustu daga, eins og TV2 og nánast allir norskir fjölmiðlar greindu frá með öndina í hálsinum í fyrradag, en sótt hans virðist í rénun og frammistaðan í dag eftir því, eins og Stig Karlsen, verkefnisstjóri norska hópsins í Eurovision í ár, greindi NRK frá í áður tilvitnaðri frétt:

„Þetta gekk frábærlega. Röddin var kannski bara 99 prósent en við siglum þöndum seglum í úrslitin,“ sagði Karlsen og sagði Rybak og samflytjendur hans á sviðinu hafa kallað fram mikil fagnaðarlæti í salnum.

Straumlausir Svíar

Svíar áttu ekki sama láni að fagna í prufu dagsins, að minnsta kosti ekki til að byrja með, en rafmagnið sveik þá í fyrstu umferð svo tilkomumikil ljósasýning þeirra varð hálfgert myrkraverk. Sænska dagblaðið Aftonbladet greinir frá því í dag að Eurovision-fulltrúi þjóðarinnar, Benjamin Ingrosso, hafi þurft að fara af sviðinu eftir að ljóst var að ekki kviknaði á perunni og Svartfjallaland hafið söng sinn í staðinn. „Ég veit bara ekkert hvað gerðist, þetta virkaði bara ekki,“ sagði svekkt Karin Gunnarsson, talsmaður sænska hópsins, í samtali við blaðið. Ingrosso mátti að lokum sætta sig við að vera settur aftast í prufuna og féll sænska lagið við það úr sjöunda í áttunda sæti hjá veðbönkum svo ekki virðast allir jafnvissir um að Svíar fari með sinn sjöunda sigur af hólmi í sögu Eurovision.

Trine Skei Grande lofar peningum

„Ég veit að þú ert ömurlegur kokkur en kannt sannarlega að búa til tónlist. Ég tel að þú sért í standi til að brjótast gegnum múrinn fyrir Noreg og fara með sigur af hólmi. Þá skal ég fara í það mál að finna peninga til að halda svakalega keppni hér í Noregi.“ Það er engin önnur en menningarmálaráðherra Noregs, Trine Skei Grande, sem rífur svo langan fisk úr roði í myndbandsávarpi sem hún setur á Facebook-síðu sína og NRK greinir frá í dag en þar stappar ráðherrann stálinu í Rybak og lýsir miklum vilja til að halda keppnina að ári hreppi fiðluleikarinn hnossið á laugardaginn.

Grande lætur sér greinilega í léttu rúmi liggja ummæli fyrrverandi útvarpsstjóra NRK, Hans-Tore Bjerkaas, eftir keppnina í Ósló 2010, þess efnis að kostnaður við að halda keppnina væri kominn út fyrir allan þjófabálk og ótækt væri með öllu að ríkisútvarpið hefði þurft að punga út 200 milljónum norskra króna af fjárveitingu sinni, jafnvirði rúmra 2,5 milljarða íslenskra króna í dag (en um fimm milljarða miðað við gengi ársins 2010) fyrir keppnina vorið 2010. Spyrjum að leikslokum.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er góður dagur til að ræða vandamál sem hafa komið upp í vinnunni. Reyndu að skoða málin frá öllum hliðum án tillits til þess hvað hentar þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er góður dagur til að ræða vandamál sem hafa komið upp í vinnunni. Reyndu að skoða málin frá öllum hliðum án tillits til þess hvað hentar þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir