Óttar og Mikeal Torfason skrifa handrit að danskri sjónvarpsseríu

Óttar M. Norðfjörð býr í Barcelona.
Óttar M. Norðfjörð býr í Barcelona. Ljósmynd/Eloísa Vázquez

Óttar Martin Norðfjörð rithöfundur og eiginkona hans, ljósmyndarinn Elo Vázquez, hafa flúið Barcelona ásamt sonum sínum tveimur til suður hluta Spánar þar sem fjölskylda Elo er búsett. 

Þar ætla þau að dvelja þar til helsta hættan tengt kórónuveirunni er yfirstaðin í landinu. Þrátt fyrir flóttann virðast áhugaverð verkefni leita Óttar uppi. Hann og Mikael Torfason hafa fengið það verkefni að skrifa danska sjónvarpsseríu svo eitthvað sé nefnt. 

„Það er mun afslappaðra á suður Spáni en í Barcelona um þessar mundir. Við dveljum hjá fjölskyldu Elo í heimbæ þeirra í suður Andalúsíu þar sem stemningin er afslöppuð og við getum fengið hvíld frá grímum og handspritti.“

Óttar ásamt eiginkonu sinni Elo og Oliver sem er eldri …
Óttar ásamt eiginkonu sinni Elo og Oliver sem er eldri sonur þeirra hjóna. Ljósmynd/Eloísa Vázquez

Óttar segir þægilegt að starfa við það sem hann gerir núna, þar sem hann getur unnið störf sín hvar sem er í heiminum. 

Hvað getur þú sagt mér um verkefnin þín í dag?

„Síðastliðin sex ár hef ég aðallega verið að vinna við að skrifa handrit. Ég gaf út bókina Dimmuborgir í vor sem er skáldsaga sem ég byrjaði að skrifa fyrir sjö árum síðan. Bókin fjallar í grunninn um einelti, en hugmynd að bókinni kviknaði þegar ég las sænska skáldsögu fyrir einhverjum tíu árum síðan.

Við Mikael Torfason erum um þessar mundir að vinna við að skrifa danska sjónvarpsþáttaseríu sem kom til okkar í gegnum Kim Magnusson. Við fengum 10 blaðsíðna skjal með frekar fastmótuðum hugmyndum sem við erum að vinna eftir. Eins og staðan er núna þá er ýmislegt á teikniborðinu tengt þessum þáttum. Áhugaverð þekkt nöfn hafa verið nefnd í þessu samhengi. Meðal annars ætlar kvikmyndagerðarmaðurinn þýski Achim Von Borries að koma að gerð þáttanna. Þeir sem hafa vit á þýskri sjónvarpsgerð vita að hann er einn af þremur handritshöfundum og leikstjórum Babylon Berlin sem notið hafa vinsælda í þýskalandi um þessar mundir.“

Dönsk sjónvarpssería eins og hún gerist best

Það hlýtur að vera heiður fyrir íslenska kvikmyndagerðamenn að fá slík tækifæri frá Danmörku?

„Já eins og málin standa núna felur hugmyndin í sér að gera danska sjónvarpsseríu. En hlutirnir geta breyst hratt og ekkert því til fyrirstöðu að hún verði alþjóðleg þegar yfir líkur.“

Óttar og Mikael unnu fyrst saman í sjóvarpseríunni Valhalla Murders. 

„Við náðum vel saman í því verkefni og tel ég það ástæðuna fyrir því að leitað er til okkar aftur með þetta verkefni. Ég á erfitt með að segja of mikið frá sögunni að svo stöddu, en ég get sagt að söguþráðurinn mun gerast í Danmörku og á Grænlandi. Mikael bjó í Grænlandi í eitt ár á sínum tíma og þótti okkur áhugavert að láta hluta sögunnar gerast þar.“

Á íslenskt kvikmyndagerðarfólk upp á pallborðið um þessar mundir?

„Já það held ég að sé ekki spurning. Bæði er Ísland áhugaverður staður til kvikmyndaupptöku. Kvikmyndagerðarfólkið okkar hefur hlotið mikið af viðurkenningu á undanförnum árum. Það að ég búi hér úti en vinni aðallega að íslenskri kvikmyndagerð segir margt um tækifærin í greininni. Mér finnst magnað að fá þetta danska verkefni og hlakka til að sjá hvernig málin þróast á næstu árum.“

Ekki með neitt ferskt að segja um kórónuveiruna

Eru aukin tækifæri á kórónuveirutímum?

„Ég er ekki með neitt ferskt að segja um það. Nema bara að ég er að reyna að smitast ekki af veirunni og þannig að koma í veg fyrir að ég smiti aðra. Ég sé þetta sem tvískipt mál annars vegar einstaklingsbundið og síðan samfélagslegt. Við ætlum að reyna að þrauka og vera skynsöm þangað til mótefni fæst við veirunni. Hver þarf að taka ábyrgð á sér á þessum tíma og finna skynsamlegar útfærslur sem henta þá bæði fjölskyldu og starfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu ekki aðra þurfa að velkjast í vafa um meiningar þínar. Bjóddu vinunum heim í kvöld.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu ekki aðra þurfa að velkjast í vafa um meiningar þínar. Bjóddu vinunum heim í kvöld.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar