Opna sig um veikindi prinsins

Jóakim ásamt Maríu prinsessu á síðasta ári.
Jóakim ásamt Maríu prinsessu á síðasta ári. AFP

Jóakim prins og eiginkona hans María prinsessa hafa nú tjáð sig í fyrsta sinn um veikindi Jóakims sem ógnuðu lífi hans fyrir tæpu ári. Þau segja að litlu hafi mátt muna að allt færi á versta veg. Þetta kemur fram í viðtali þeirra við tímarit Hjernesagen sem eru góðgerðarsamtök þeirra sem hafa fengið heilablóðfall.

„Það mátti litlu muna að úr yrði harmleikur sem breytti lífi okkar að eilífu,“ sagði prinsessan en síðasta sumar fékk Jóakim, sem er 51 árs, heilablóðfall og var lengi að jafna sig.

Jóakim prins tekur undir þetta og segist hafa getað reitt sig á ótrúlegan stuðning eiginkonu sinnar í gegnum veikindin. Hún hafi farið í ákveðið hernaðarástand þegar hún tók eftir einkennum sem bentu til þess að hann væri að fá heilablóðfall. „Ég tók eftir að Jóakim hafði sagt eitthvað sem ekkert vit var í þegar hann var að tala við frænda sem var í heimsókn en þeir sem þekkja Jóakim vita að hver setning hans er alltaf afar vel ígrunduð. Ég bað hann að endurtaka sig. Ég vissi að eitthvað alvarlegt væri að og tók um leið eftir því að andlit hans virtist lamað. Þetta var mjög ógnvekjandi,“ segir prinsessan.

„Ég fann ekki fyrir neinu,“ segir prinsinn. „Ég var mjög hissa þegar María bað mig að endurtaka það sem ég sagði. Þegar ég sá svipinn á andliti hennar áttaði ég mig á að eitthvað væri að,“ sagði Jóakim.

Í stað þess að örvænta hringdi hún á sjúkrabíl, sem kom fimmtán mínútum síðar, og vék aldrei frá honum uns hann hafði náð sér að fullu. Á þeim tuttugu mínútum sem tók að keyra Jóakim á spítalann missti hann alla tilfinningu á vinstri hlið líkamans.

„Við þökkum fyrir að vera saman í dag og að geta miðlað þessari reynslu til annarra,“ segir María prinsessa.

Jóakim segir það hafa verið erfitt að leiða ekki hugann að því hvað hefði gerst ef hann hefði ekki náð að komast í aðgerð í tæka tíð. Það hafi ekki aðeins tekið toll af sér heldur líka verið afar erfitt fyrir sína nánustu.

Hjónin leggja áherslu á að fólk hunsi ekki merki um heilablóðföll og leiti sér aðstoðar strax. Þá benda þau á mikilvægi þess að hlúa líka að aðstandendum.

Kát fjölskylda. Frá vinstri eru Nikolai prins, Marie prinsessa, Aþena …
Kát fjölskylda. Frá vinstri eru Nikolai prins, Marie prinsessa, Aþena prinsessa, Jóakim prins og Felix prins með Hinrik prins í fanginu. Kongehuset.dk/Steen Brogaard
mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það getur létt álagið að bera málin undir náinn vin. Gömul ágreiningsmál munu sennilega koma upp á yfirborðið í samskiptum þínum við systkini þín og nágranna.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það getur létt álagið að bera málin undir náinn vin. Gömul ágreiningsmál munu sennilega koma upp á yfirborðið í samskiptum þínum við systkini þín og nágranna.