Féll 771 sinni á bílprófi

Öldruð kona í Suður-Kóreu hefur fallið 771 sinni á bílprófi, að sögn lögreglu þar í landi. Konan segist hins vegar ekki ætla að gefast upp. 

Að sögn blaðsins Korea Times hefur konan, sem heitir Cha og er 68 ára, tekið bílpróf nánast á hverjum virkum degi frá árinu 2005.  Hún féll enn einu sinni á prófinu í þessari viku.

„Það rennur mér til rifja í hvert skipti sem Che fellur. Nái hún prófinu einhvern tímann mun ég útbúa skrautritað heiðursskjal og afhenda henni," hefur blaðið eftir lögreglumanni.

Che er farandsali og selur mat og húsbúnað sem hún ekur með á hjólbörum. Hún segist   þurfa á bílprófi að halda svo hún geti fært út kvíarnar í sölumennskunni. Vandamálið er að hún nær aldrei skriflega hluta prófsins. Til þess þarf að fá 60 stig af 100 en Che fær jafnan á bilinu 30-50 stig.

Lögreglan áætlar að Che hafi eytt jafnvirði um 420 þúsund króna í að taka bílpróf.  

mbl.is

Bloggað um fréttina