Hálendisvaktin nú þegar sannað mikilvægi sitt

Hártrix Baldurs | 21. júní 2021

Hálendisvaktin nú þegar sannað mikilvægi sitt

Hálendisvakt björgunarsveita er hafin 15 sumarið í röð og Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörg segir að vaktin hafi nú þegar sýnt fram á mikilvægi sitt, enda voru tveir göngumenn sem skiluðu sér ekki til baka í fjallaskála nýverið og þurfti hálendisvaktin að koma mönnunum til bjargar. 

Hálendisvaktin nú þegar sannað mikilvægi sitt

Hártrix Baldurs | 21. júní 2021

Mælifell. Hálendisvakt björgunarsveita þetta sumarið er hafin.
Mælifell. Hálendisvakt björgunarsveita þetta sumarið er hafin. mbl.is/RAX

Hálendisvakt björgunarsveita er hafin 15 sumarið í röð og Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörg segir að vaktin hafi nú þegar sýnt fram á mikilvægi sitt, enda voru tveir göngumenn sem skiluðu sér ekki til baka í fjallaskála nýverið og þurfti hálendisvaktin að koma mönnunum til bjargar. 

Hálendisvakt björgunarsveita er hafin 15 sumarið í röð og Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörg segir að vaktin hafi nú þegar sýnt fram á mikilvægi sitt, enda voru tveir göngumenn sem skiluðu sér ekki til baka í fjallaskála nýverið og þurfti hálendisvaktin að koma mönnunum til bjargar. 

Sem fyrr er hálendisvakt björgunarsveita háttað þannig að bækistöðvar eru settar upp víða um hálendið og allt að 200 manns koma að hefðbundnum verkefnum; leit og björgun, síður alvarlegra hjálparstarfi, eins og aðstoð við bíla sem sitja fastir o.þ.h., sem og fræðslu fyrir ferðamenn á svæðinu.

„Við byrjuðum á föstudaginn, fyrsti hópurinn fór á Fjallabak. Svo fer núna eftir viku hópur norðan Vatnajökuls og svo í framhaldi fara hópar að Skaftafelli og loks á Sprengisand. Þannig að við erum á fjórum stöðum í sumar og lengst út ágústmánuð á Fjallabaki,“ segir Jónas við mbl.is. 

Jónas Guðmundsson ásamt Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála. Aukin …
Jónas Guðmundsson ásamt Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála. Aukin fjárveiting var veitt til hálendisvaktarinnar, samvinnuverkefnis Landsbjargar, lögreglu og þjóðgarðsvarða, fyrir örfáum árum. Ljósmynd/Aðsend

Mikilvægt samvinnuverkefni

Jónas segir að hálendisvaktin sé í raun samstarfsverkefni sem unnið sé í samvinnu við þjóðgarðsverði, lögreglu og ráðuneyti ferðamála. Aukin fjárveiting á síðustu árum undirstrikar mikilvægi þessa verkefnis. 

Í venjulegu árferði kemur hálendisvaktin að því að bjarga um 8-12 þúsund ferðamönnum á sumri, úr ýmiss konar háska, stórum sem smáum. Þannig má ljóst vera hve mikilvæg hálendisvaktin er viðbragðsaðilum sem sinna verkefnum á svæðinu.

„Og þetta sannaði mikilvægi sitt núna um síðustu helgi, þegar ferðamenn skiluðu sér ekki í skála eins og reiknað var með. Eftirgrennslan hófst, sem tók raunverulega alveg 12-16 klukkustundir hugsa ég. Þeir fundust loks og höfðu sett upp tjald á miðri gönguleið þar sem þeir treystu sér ekki lengra. Tjaldið stóð bara á hrygg uppi á hóli í hávaðaroki og rigningu, sem er ekki alveg eins og best verður á kosið.“

Í öllum tilvikum fá björgunarsveitir hjálparbeiðni, yfirleitt þá frá Neyðarlínunni, en stundum frá skjólstæðingunum sjálfum, eins og til dæmis landvörðum eða einhverju slíku. Þá er lögreglu gert viðvart og næstu skref ákveðin í sameiningu.

mbl.is