„Bandaríkin voru mjög langt í burtu“

Talíbanar í Afganistan | 11. september 2021

„Bandaríkin voru mjög langt í burtu“

Þegar hryðjuverkaárásirnar urðu 11. september árið 2001 í Bandaríkjunum voru Afganir enn að vinda ofan af sínum eigin hörmum vegna al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna.

„Bandaríkin voru mjög langt í burtu“

Talíbanar í Afganistan | 11. september 2021

Þegar hryðjuverkaárásirnar urðu 11. september árið 2001 í Bandaríkjunum voru Afganir enn að vinda ofan af sínum eigin hörmum vegna al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna.

Þegar hryðjuverkaárásirnar urðu 11. september árið 2001 í Bandaríkjunum voru Afganir enn að vinda ofan af sínum eigin hörmum vegna al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna.

Tveimur dögum áður höfðu vígamenn samtakanna myrt Ahmad Shah Massoud sem var hetja í augum Afgana fyrir að berjast bæði gegn Sovétmönnum og talíbönum á heimasvæði sínu í Panjshir-dal. Þess má geta að sonur hans, Ahmad Massoud, berst nú við talíbana á sama svæði.

Atburðirnir í Bandaríkjunum voru því almennum borgurum í Afganistan ekki efst í huga.

„Endalaust tal um árásir og stríð“

„Það kvöld hlustaði ég á fréttirnar… þar var talað um árás í Bandaríkjunum,“ segir Abdul Rahman eftirlaunaþegi í samtali við AFP-fréttaveituna.

„Mér var alveg sama af því það var endalaust tal um árásir og stríð í útvarpinu.“

Á næstu dögum fréttu Afganir hins vegar að vígamenn al-Qaeda hefðu verið í felum í Afganistan að skipuleggja árásirnar. Þá var talíbönum einnig kennt um að hafa skotið skjólshúsi yfir hryðjuverkasamtökin.

„Ég hélt að Bandaríkin myndu ekki hefna sín á Afganistan. Ég hélt að Bandaríkin væru mjög langt í burtu,“ segir Rahman.

Upphafið að óásættanlegri hersetu 

Bókasafnsfræðingurinn Abdul Samad segist muna eftir því að hafa séð forsíður dagblaðanna með myndum af tvíburaturnunum.

„Það var næstum tveimur dögum eftir árásirnar,“ segir Samad og bætir við að árásirnar hafi verið upphafið að óásættanlegri hersetu Bandaríkjanna í Afganistan. „Þeir voru að leita að ástæðu til þess að setjast að í Afganistan. Árásirnar voru afsökun þess að hernema landið.“

Þegar að talíbanar neituðu að láta Osama bin Laden, leiðtoga al-Qaeda af hendi, hernámu Bandaríkin landið á nokkrum vikum en talíbanar höfðu verið þar við völd frá árinu 1996.

„Enn meiri óreiða“

Qiyamuddin, lásasmiður frá Kandahar, segir að allar vonir um að með Bandaríkjunum kæmi friður hafi brugðist fljótlega.

„Það fylgdi þeim enn meiri óreiða,“ segir Qiyamuddin.

Stríðið í Afganistan dróst hins vegar á langinn og talíbanar skutu aftur upp kollinum. Þá voru erlendir hermenn sakaðir um að vanvirða trú Afganistan og hefðir. Á sama tíma féllu sífellt fleiri almennir borgarar í átökum.

Talíbanar aftur teknir við völdum

Kennarinn Noorullah segir að eftir hernámið hafi fylgt stutt tímabil friðar. „Þegar talíbanarnir voru farnir var fólk hamingjusamt, það gat loks um frjálst höfuð strokið.“

En eftir því sem tíminn leið segist Noorullah hafa áttað sig á því að Bandaríkin væru komin á rangan stað. „Þetta var gildra fyrir þá.“

„Og 20 árum seinna þá hef ég rétt fyrir mér. Talíbanarnir eru komnir aftur. Sama fólkið, sömu andlitin og sama afstaðan,“  segir Noorullah.

Hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum 11. september 2001 höfðu mikil áhrif á …
Hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum 11. september 2001 höfðu mikil áhrif á framtíð Afganistan. AFP
mbl.is