Ekki njósnaefni frekar en Google Maps

Rússland | 24. október 2022

Ekki njósnaefni frekar en Google Maps

Enn voru rússneskir ríkisborgarar handteknir við myndatökur í Noregi, að þessu sinni á laugardaginn. Nú ber hins vegar svo við að héraðsdómur vill ekki leggja blessun sína yfir kröfur lögreglu, tveggja vikna gæsluvarðhald með algjörri einangrun.

Ekki njósnaefni frekar en Google Maps

Rússland | 24. október 2022

Bjerkvik er í sveitarfélaginu Narvik í Nordland þar sem ein …
Bjerkvik er í sveitarfélaginu Narvik í Nordland þar sem ein frægasta orrusta síðari heimsstyrjaldarinnar í Noregi fór fram, orrustan um Narvik, sem stóð í tvo mánuði samfleytt vorið 1940. Ljósmynd/Wikipedia.org/Chmee2

Enn voru rússneskir ríkisborgarar handteknir við myndatökur í Noregi, að þessu sinni á laugardaginn. Nú ber hins vegar svo við að héraðsdómur vill ekki leggja blessun sína yfir kröfur lögreglu, tveggja vikna gæsluvarðhald með algjörri einangrun.

Enn voru rússneskir ríkisborgarar handteknir við myndatökur í Noregi, að þessu sinni á laugardaginn. Nú ber hins vegar svo við að héraðsdómur vill ekki leggja blessun sína yfir kröfur lögreglu, tveggja vikna gæsluvarðhald með algjörri einangrun.

Um er að ræða par á fertugsaldri sem lögregla stöðvaði og handtók í Bjerkvik í Nordland-fylki. Leikur grunur á ólögmætum myndatökum í nágrenni hernaðarlega mikilvægra staða en fólkið var á ferð nálægt verkstæði hersins í Bjerkvik auk þess sem Elvegårdsmoen-herbúðirnar eru skammt undan.

Segir Steffen Ravnåsen, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar í Nordre Nordland, norska ríkisútvarpinu NRK að fólkið sé grunað um brot gegn ljósmyndabanninu. Þegar krafa um gæsluvarðhaldsúrskurð var lögð fram við Héraðsdóm Salten og Lofoten í dag taldi héraðsdómari röksemdir lögreglu hanga á bláþræði.

Ein mynd tekin út um glugga

Í skriflegum rökstuðningi dómsins kemur fram að parið hafi tekið eina einustu ljósmynd út um glugga bifreiðar á ferð. Er það eina myndin frá bannsvæðinu sem lögregla fann í fórum fólksins. Gaf annað grunuðu réttinum þá skýringu að myndin hefði verið tekin af bryggju með vatn og fjallasýn að baki. Engin bannskilti hafi fólkið komið auga á.

„Myndin er tekin úr svo mikilli fjarlægð að ekki er hægt að segja að út úr henni megi lesa meiri upplýsingar en af myndum sem sjá má gegnum Google Street View-möguleikann á Google Maps,“ ritar dómari.

Rússunum handteknu beri því að sleppa úr haldi, ekkert hernaðarlegt megi sjá á umræddri ljósmynd. Lögregla kveðst hins vegar ekki sleppa fólkinu úr haldi þar sem hún kæri úrskurðinn til lögmannsréttar og hafa parinu nú verið útvegaðir verjendur sem báðir lýsa sig sammála niðurstöðu héraðsdóms.

Ravnåsen ákæruvaldsfulltrúi kveður fólkið hafa verið stöðvað við venjulegt eftirlit lögreglu sem um þessar mundir einkennist af aukinni árvekni vegna hugsanlegra njósna. Greinir hann enn fremur frá því að málið hafi nú verið fært öryggislögreglunni PST til frekari rannsóknar.

NRK

E24

TV2

mbl.is