Norðmenn geti sér illan orðstír

Rússland | 27. október 2022

Norðmenn geti sér illan orðstír

„Yfirvöld vilja fangelsa mig fyrir fram, áður en nokkuð liggur fyrir um sekt mína,“ segir hinn rússneski Vitalij Aleksandrovitsj Rustanovitsj í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Rússinn er nýlaus úr gæsluvarðhaldi í nyrsta fylki Noregs en hann var handtekinn á leið yfir til Rússlands gegnum Storskog 11. október er drónar fundust í farangri hans við leit.

Norðmenn geti sér illan orðstír

Rússland | 27. október 2022

Drónar og myndatökur hafa komið mikið við sögu í lögreglumálum …
Drónar og myndatökur hafa komið mikið við sögu í lögreglumálum í Norður-Noregi upp á síðkastið. AFP

„Yfirvöld vilja fangelsa mig fyrir fram, áður en nokkuð liggur fyrir um sekt mína,“ segir hinn rússneski Vitalij Aleksandrovitsj Rustanovitsj í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Rússinn er nýlaus úr gæsluvarðhaldi í nyrsta fylki Noregs en hann var handtekinn á leið yfir til Rússlands gegnum Storskog 11. október er drónar fundust í farangri hans við leit.

„Yfirvöld vilja fangelsa mig fyrir fram, áður en nokkuð liggur fyrir um sekt mína,“ segir hinn rússneski Vitalij Aleksandrovitsj Rustanovitsj í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Rússinn er nýlaus úr gæsluvarðhaldi í nyrsta fylki Noregs en hann var handtekinn á leið yfir til Rússlands gegnum Storskog 11. október er drónar fundust í farangri hans við leit.

Krefst lögregla nú áframhaldandi gæsluvarðhalds, fjögurra vikna, þar til aðalmeðferð hefst í máli Rússans fyrir héraðsdómi. Verður úrskurðað í því máli síðar í dag.

„Ég hef ekki myndað neitt ólöglegt. Þeir [lögreglan] reyna að búa til grunsemdir um njósnir,“ sagði Rustanovitsj við gæsluvarðhaldsþinghaldið í dag. Að eigin sögn er hann ljósmyndari. „Það er út í hött að ég eigi að sitja fjórar vikur í viðbót á meðan þeir reyna að finna eitthvað sem er ekki til,“ sagði hann enn fremur.

Fjögur terabæt af myndefni

Við NRK segir Rustanovitsj að hann hafi gefið lögreglu upplýsingar um hvað hann hafi myndað og verið eins samstarfsfús og verða megi. Telur hann málið að fullu upplýst. Vissulega hafi hann flogið drónum sínum en gengið þess dulinn að slíkt væri lögbrot.

Ljósmyndarinn sat ekki auðum höndum, lögreglan lagði hald á fjögur terabæt af myndefni. Til að setja slíkt gagnamagn í samhengi er eitt terabæt eitt þúsund gígabæt en algengt minnisrými einkatölva nútímans er 500 gígabæt. Segir Rustanovitsj þó eingöngu brot þessa gagnamagns vera myndefni frá Noregi, kannski 70 gígabæt áætlar hann.

Nú hafi lögregla haft tvær vikur til að fara yfir efnið, á meðan hann sat í gæsluvarðhaldi, og telur Rússinn það meira en nóg. Löndum hans mörgum hafi verið sleppt strax eftir að lögregla hafði farið yfir myndirnar þeirra úr fríinu. Sjálfur hafi hann verið að mynda sumarbústaði í syðri hlutum Noregs vegna auglýsinga á samfélagsmiðlum en í Norður-Noregi hafi hann tekið náttúrumyndir sér til yndisauka.

Lög um viðskiptabann hafi hér ekkert að segja

Lögregla telur enn fremur að Rustanovitsj hafi brotið lög um viðskiptabann, en þau leggja bann við flugrekstri Rússa í Noregi. Þennan þátt telja lögspakir menn þó vafasaman þar sem drónar hafi ekki með afgerandi hætti verið skilgreindir sem loftför í norskum lögum.

Telur Jens Bernhard Herstad, verjandi Rustanovitsj, áframhaldandi gæsluvarðhald jaðra við mannréttindabrot. Lögunum um viðskiptabann hafi aldrei verið ætlað að ná til einstaklinga, hvað þá drónaflugs. Þau beinist gegn rússnesku hagkerfi vegna stríðsins í Úkraínu.

„Orðstír Noregs sem lýðræðis- og réttarríkis er greitt þungt högg,“ segir Rustanovitsj, en Herstad kvartaði við þinghaldið í dag yfir hægagangi við málareksturinn, skjólstæðingur hans hafi verið yfirheyrður einu sinni og eitt vitni einu sinni.

Eve Remmen, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar, hótaði kæru til lögmannsréttar fengist ekki úrskurður um gæsluvarðhald. Rannsókn málsins hefur verið færð til öryggislögreglunnar PST sem ekki vill tjá sig um stöðuna.

NRK

NRKII (öðrum Rússum sleppt)

Nettavisen

mbl.is