Þýsk herskip gæta norskrar olíuvinnslu

Rússland | 27. október 2022

Þýsk herskip gæta norskrar olíuvinnslu

Þrjár þýskar freigátur verða eftir á norsku hafsvæði í kjölfar heræfingarinnar „Heimdallur“ við Andøya í Nordland til að aðstoða norska sjóherinn við öryggisvörslu olíuvinnslupalla landsins.

Þýsk herskip gæta norskrar olíuvinnslu

Rússland | 27. október 2022

Þýska freigátan Mecklenburg-Vorpommern á olíuvinnslusvæðinu Sleipner í Norðursjónum.
Þýska freigátan Mecklenburg-Vorpommern á olíuvinnslusvæðinu Sleipner í Norðursjónum. Ljósmynd/Þýski sjóherinn

Þrjár þýskar freigátur verða eftir á norsku hafsvæði í kjölfar heræfingarinnar „Heimdallur“ við Andøya í Nordland til að aðstoða norska sjóherinn við öryggisvörslu olíuvinnslupalla landsins.

Þrjár þýskar freigátur verða eftir á norsku hafsvæði í kjölfar heræfingarinnar „Heimdallur“ við Andøya í Nordland til að aðstoða norska sjóherinn við öryggisvörslu olíuvinnslupalla landsins.

Þátt í Heimdalli taka öll meginsvið þýska hersins, land-, sjó- og flugher, auk norsks herstyrks, og koma alls um 1.200 manns  að Heimdalli. Þýsku freigáturnar þrjár eru Rheinland-Pfalz, Schleswig-Holstein og Mecklenburg-Vorpommern.

Þjóðverjar áttu frumkvæði að því að fley þessi yrðu eftir um stund við Noreg og hefðu eftirlit með olíupöllunum. Þetta staðfestir norska varnarmálaráðuneytið við norska ríkisútvarpið NRK. Bjørn Arild Gram varnarmálaráðherra heimsótti eitt þýsku skipanna í dag.

Engin framhleypni

„Við fengum strax stuðningsyfirlýsingar frá bandamönnum eftir sprengingarnar í Eystrasalti [gasleiðslurnar sem sprengdar voru í septemberlok] og jukum þá viðbúnað okkar í Norðursjónum. Síðan höfum við átt í viðræðum við bandamenn okkar, þar á meðal Þjóðverja, og það gleður mig ákaflega að við eigum nú þennan stuðning Þjóðverja vísan að æfingunni lokinni,“ segir ráðherra við NRK.

„Þetta er engin framhleypni af okkar hálfu,“ segir Gram, spurður hvort þessi aðstoð Þjóðverja kunni að auka spennuna milli Rússlands og Atlantshafsbandalagsins, „við erum bara að gæta okkar útbúnaðar. Við finnum fyrir aukinni ógn og það er stríð í Evrópu,“ segir hann enn fremur og bætir því við að hvergi sé aðfinnsluvert að Noregur hækki viðbúnaðarstigið og gæti að því sem Evrópu er mikilvægt, aðföngum gass.

Norska freigátan KNM Thor Heyerdahl á Heidrun-vinnslusvæðinu. Í fjarska sést …
Norska freigátan KNM Thor Heyerdahl á Heidrun-vinnslusvæðinu. Í fjarska sést olíuvinnslupallurinn Draugen. Ljósmynd/Norski sjóherinn

Eftir atburði síðustu mánaða er nefnilega svo komið nú, að Noregur er helsti gasbirgir álfunnar sem eykur hættuna á því að Rússar reyni með einhverjum hætti að gera Norðmönnum skráveifu á þessum vettvangi.

Evrópa háð öruggum gasflutningum

Per Erik Solli, varnarmálagreinandi hjá Utanríkisstefnumálastofnun Noregs, Norsk utenrikspolitisk institutt, kveður viðveru Þjóðverja á norskum olíuvinnslusvæðum þýðingarmikla.

„Hvort tveggja fyrir Noreg og Þýskaland. Evrópa er algjörlega háð því að gasflutningar til Bretlands og meginlandsins gangi snurðulaust fyrir sig. Verði þeir fyrir skakkaföllum mun það hafa alvarlegar afleiðingar,“ segir Solli.

Per Erik Solli varnarmálagreinandi segir viðveru Þjóðverja þýðingarmikla.
Per Erik Solli varnarmálagreinandi segir viðveru Þjóðverja þýðingarmikla. Ljósmynd/Norski herinn/Onar Digernes Aase

Hann telur öryggisgæsluna ekki munu hafa í för með sér aukna spennu í norðri, nær rússnesku landamærunum. „Þvert á móti. Hún stuðlar einmitt að jafnvægi núverandi ástands. Noregur er það lítið land að hann skapar aldrei valdajafnvægi gagnvart Rússlandi samtímis því að sinna þeim verkefnum sem sinna þarf á nyrðri svæðunum,“ segir greinandinn enn fremur.

NRK

NRKII (aukinn viðbúnaður eftir skemmdarverkin)

Teknisk Ukeblad

mbl.is