Slóð rússneska njósnarans rakin

Rússland | 1. nóvember 2022

Slóð rússneska njósnarans rakin

Slóð rússneska njósnarans og leyniþjónustumannsins meinta, sem handtekinn var í Tromsø í síðustu viku, Mikhail Valerjevitsj Mikusjin, liggur alla leið til Malasíu að sögn norska ríkisútvarpsins NRK sem farið hefur ofan í saumana á því hvernig Mikusjin varð að hinum brasilíska José Assis Giammaria, fræðimanni og gestarannsakanda í norðurslóðamálum við Háskólann í Tromsø.

Slóð rússneska njósnarans rakin

Rússland | 1. nóvember 2022

Andlitsgreiningarforrit sem NRK notar gefur til kynna að maðurinn vinstra …
Andlitsgreiningarforrit sem NRK notar gefur til kynna að maðurinn vinstra megin á myndinni, sem tekin er í Malasíu árið 2009, sé Mikhail Valerjevitsj Mikusjin sem nýlega dúkkaði upp við Háskólann í Tromsø í Noregi sem brasilíski fræðimaðurinn José Assis Giammaria. Ljósmynd/Facebook

Slóð rússneska njósnarans og leyniþjónustumannsins meinta, sem handtekinn var í Tromsø í síðustu viku, Mikhail Valerjevitsj Mikusjin, liggur alla leið til Malasíu að sögn norska ríkisútvarpsins NRK sem farið hefur ofan í saumana á því hvernig Mikusjin varð að hinum brasilíska José Assis Giammaria, fræðimanni og gestarannsakanda í norðurslóðamálum við Háskólann í Tromsø.

Slóð rússneska njósnarans og leyniþjónustumannsins meinta, sem handtekinn var í Tromsø í síðustu viku, Mikhail Valerjevitsj Mikusjin, liggur alla leið til Malasíu að sögn norska ríkisútvarpsins NRK sem farið hefur ofan í saumana á því hvernig Mikusjin varð að hinum brasilíska José Assis Giammaria, fræðimanni og gestarannsakanda í norðurslóðamálum við Háskólann í Tromsø.

Giammaria er ekki auðfundinn á samfélagsmiðlum og virðist ekki eiga sér neina slóð þar nema gamla Facebook-síðu sem stendur svo gott sem auð. Tókst NRK að hafa uppi á manni sem Giammaria var tengdur á samfélagsmiðlinum og sá hafði birt einhverjar myndir af Giammaria – sem sýna vitanlega Mikusjin.

Virðist hann hafa varið töluverðum tíma í Malasíu en Tom Røseth, yfirkennari í leyniþjónustufræðum við Herskóla Noregs, segir landið kjörlendi þeirra sem kjósa að fara huldu höfði. „Þar laðar Malasía að vegna þess að þar er auðvelt að þjálfa sig í að nota persónugervi [n dekk-identitet]. Jafnframt býr þar fjöldi fólks með alþjóðlegan bakgrunn,“ segir herskólakennarinn.

Rafræn spor í Rússlandi

Rannsóknarvefsíðan Bellingcat segir Mikusjin hafa útskrifast úr „njósnaskóla“ rússnesku leyniþjónustunnar GRU árið 2006, þá 28 ára gamlan. Sama ár öðlaðist Rússinn brasilískt ríkisfang með því að halda því fram að móðir hans hafi verið brasilísk.

Þremur árum eftir útskriftina finnur NRK fyrstu stafrænu sporin í hinu nýja lífi Mikusjins. Þá er hann við nám við Taylor-háskólann í Malasíu sem sérhæfir sig í að gera nemendur sína hæfa til að komast að hjá sterkum alþjóðlegum háskólum, svo sem í Kanada þar sem Mikusjin fékk inni í Centre for Military, Secu­rity and Stra­tegic Studies í Cal­gary og lauk þaðan BA-prófi í alþjóðasamskiptum.

Brasilíumaðurinn José Assis Giammaria, hvers manns hugljúfi við Háskólann í …
Brasilíumaðurinn José Assis Giammaria, hvers manns hugljúfi við Háskólann í Tromsø, er í raun talinn vera rússneski leyniþjónustumaðurinn Mikhail Valerjevitsj Mikusjin. Ljósmynd/Friðarrannsóknarsetur Háskólans í Tromsø

Að Malasíudvöl lokinni flutti Mikusjin til Kanada árið 2011 en fór margar ferðir þaðan til Rússlands að sögn vefmiðilsins Insider og skildi þá gjarnan eftir sig rafræn spor, svo sem þegar hann leigði sér rafmagnshlaupahjól og greiddi með korti. Áðurnefnda vefsíðan Bellingcat hefur enn fremur farið ofan í saumana á heimilisföngum Mikusjins í Rússlandi og reynist eitt þeirra vera í fjölbýlishúsi með íbúðum fyrir yfirmenn GRU.

Norska öryggislögreglan PST vill ekkert gefa upp um sína vitneskju um Mikusjin. „PST hefur nýhafið þessa rannsókn sem verður mjög umfangsmikil. Þar verður svara leitað um bakgrunn grunaða,“ segir Trond Hugubakken, upplýsingafulltrúi PST, við NRK. PST taki nú skýrslur af vitnum og fari gegnum muni sem hald var lagt á í fórum Mikusjins. „Ein af ástæðum þess að við getum ekki gefið frekari upplýsingar er hættan á að sönnunargögnum verði spillt,“ segir upplýsingafulltrúinn.

NRK

NRKII (rannsóknir Bellingcat-síðunnar)

VG

Aftenposten

mbl.is