„Fólk grét, hló og dansaði“

Flóttafólk á Íslandi | 12. febrúar 2023

„Fólk grét, hló og dansaði“

„Það var setið í hverju einasta sæti. Fólk grét, hló og dansaði og myndaði alls kyns tengsl,“ segir Halla Karen Guðjónsdóttir, viðburðarstjóri hjá Reykjanesbæ, um viðburðinn BPart, eða taktu þátt, sem lauk í gær.

„Fólk grét, hló og dansaði“

Flóttafólk á Íslandi | 12. febrúar 2023

Sýningin ber heitið Elegìa delle cose perdute, eða Hamhljóð horfinna …
Sýningin ber heitið Elegìa delle cose perdute, eða Hamhljóð horfinna hluta. Ljósmynd/Aðsend

„Það var setið í hverju einasta sæti. Fólk grét, hló og dansaði og myndaði alls kyns tengsl,“ segir Halla Karen Guðjónsdóttir, viðburðarstjóri hjá Reykjanesbæ, um viðburðinn BPart, eða taktu þátt, sem lauk í gær.

„Það var setið í hverju einasta sæti. Fólk grét, hló og dansaði og myndaði alls kyns tengsl,“ segir Halla Karen Guðjónsdóttir, viðburðarstjóri hjá Reykjanesbæ, um viðburðinn BPart, eða taktu þátt, sem lauk í gær.

Um er að ræða tveggja ára alþjóðlegt verkefni sem á uppruna sinn í Tékklandi í samstarfi við Ísland. Verkefnið fer fram á þremur stöðum. Í borginni Brno í Tékklandi var lögð áhersla á Rómafólk, í Prag verður lögð áhersla á geðheilsu og á Íslandi var sjónum beint að fólki á flótta.

„Listamenn fara á þessa þrjá staði og halda þrjár mismunandi sýningar, eina á hverjum stað. Lögð er áhersla á að þessir hópar fái tækifæri til að vera þátttakendur í samfélaginu. Þetta snýst ekki aðeins um að mynda tengsl heldur líka að þau finni rætur í samfélaginu. Í þessum löndum eru þau kannski svolítið utangarðs,“ segir Halla.

Sýningin fór fram í gömlu rútuverkstæði í Reykjanesbæ.
Sýningin fór fram í gömlu rútuverkstæði í Reykjanesbæ. Ljósmynd/Aðsend

Héldu sýninguna í gömlu rútuverkstæði

Vinnustofur voru haldnar í Reykjanesbæ, Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði og voru leiddar af ítalska danshópnum Zerogrammi í samstarfi við íslenskt og tékkneskt listafólk. Í vinnustofunum, sem stóðu yfir í tvær vikur, voru tengdir saman ólíkir hópar fólks sem unnu í gegnum leik og dans að sameiginlegri lokasýningu sem sýnd var í gömlu rútuverkstæði í Reykjanesbæ í gær.

Sýningin ber heitið Elegìa delle cose perdute, eða Hamhljóð horfinna hluta, sem að sögn Höllu hreyfði við fólki.

„Sýningin er byggð á portúgalskri sögu og endurspeglar rætur, uppruna og landakortið sem er innra með okkur. Það er alveg sama hvar við erum, við höfum alltaf þetta landakort innra með okkur. Þetta var alveg stórkostlegt og heppnaðist ótrúlega vel.“

Halla segir fólkið hafa komið út úr skelinni á æfingum.
Halla segir fólkið hafa komið út úr skelinni á æfingum. Ljósmynd/Aðsend

Mætti óöruggt á fyrstu æfinguna

Halla lýsir því hvernig fólkið hafi komið út úr skelinni á æfingum.

„Að fylgjast með þessu fólki sem kom á fyrstu æfinguna kannski frekar feimið og óöruggt, en þegar tíu mínútur voru liðnar af æfingunni voru allir hlaupandi, dansandi, hlægjandi. Sama hvort þetta voru sextugir karlmenn eða níu ára gömul börn, það var bara allur skalinn og þetta var alveg dásamlegt.

Þetta hefur gefið þátttakendum mikið og þetta gaf áhorfendum mikið og þá er markmiðinu náð.“

Vinnustofur voru leiddar af ítalska danshópnum Zerogrammi.
Vinnustofur voru leiddar af ítalska danshópnum Zerogrammi. Ljósmynd/Aðsend

Niðurstöður kynntar í lok árs

Samhliða viðburðinum er unnið að heimildamynd og rannsókn.

„Það er verið að skoða hvaða áhrif þessi þátttaka hefur á fólk í þessum hópum. Svo verður haldin ráðstefna í lok þessa árs þar sem niðurstöður úr rannsókninni verða kynntar ásamt því að heimildamyndin verður sýnd,“ segir Halla.

Flóttafólkið og fólk í leit að alþjóðlegri vernd kemur frá Afganistan, Bangladess, Kólumbíu, Íran, Írak, Nígeríu, Palestínu, Sómalíu, Sýrlandi, Úkraínu og Venesúela. Einnig eru þátttakendur frá Litháen, Portúgal og Spáni, auk fólks frá Íslandi.

Reykjanesbær sá um að halda sýninguna, en aðrir samstarfsaðilar hér á landi eru Dansverkstæðið, Rauði kross Íslands, Gerðarsafn Kópavogs, Borgarbókasafn Reykjavíkur, Iðnó, Hamarinn, Árskógar og Vitatorg.

mbl.is