Hefur gríðarlegar áhyggjur af rekstri borgarinnar

Hefur gríðarlegar áhyggjur af rekstri borgarinnar

„Ég lýsi gríðarlegum áhyggjum af rekstri Reykjavíkurborgar sem fer stigversnandi, þrátt fyrir yfirlýsingar borgarstjóra um gríðarlegan viðsnúning á þessu ári. Nú hefur komið í ljós að niðurstaðan í rekstri samstæðunnar er nær 13 milljörðum lakari en áætlanir borgarstjóra gerðu ráð fyrir,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í tilkynningu.

Hefur gríðarlegar áhyggjur af rekstri borgarinnar

Fjárhagsörðugleikar Reykjavíkurborgar | 7. september 2023

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég lýsi gríðarlegum áhyggjum af rekstri Reykjavíkurborgar sem fer stigversnandi, þrátt fyrir yfirlýsingar borgarstjóra um gríðarlegan viðsnúning á þessu ári. Nú hefur komið í ljós að niðurstaðan í rekstri samstæðunnar er nær 13 milljörðum lakari en áætlanir borgarstjóra gerðu ráð fyrir,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í tilkynningu.

„Ég lýsi gríðarlegum áhyggjum af rekstri Reykjavíkurborgar sem fer stigversnandi, þrátt fyrir yfirlýsingar borgarstjóra um gríðarlegan viðsnúning á þessu ári. Nú hefur komið í ljós að niðurstaðan í rekstri samstæðunnar er nær 13 milljörðum lakari en áætlanir borgarstjóra gerðu ráð fyrir,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í tilkynningu.

Árshlutauppgjör Reykjavíkurborgar fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2023 var birt í Kauphöll í dag, en uppgjörið var til kynningar í borgarráði í morgun. Sem fyrr segir er niðurstaðan nær 13 milljörðum lakari en áætlun gerði ráð fyrir.

Átti að skila 8 milljarða afgangi

Í tilkynningu borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins segir, að í uppgjörinu komi fram að rekstrarniðurstaða A- og B-hluta hafi reynst vera neikvæð um 6,7 milljarðar króna á fyrstu sex mánuðum ársins, sem var 12,8 milljörðum króna lakari niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir. Samkvæmt fjárhagsáætlun borgarinnar hafi samstæða borgarinnar átt að skila ríflega átta milljarða afgangi á árinu 2023.

„Þessi neikvæða sveifla í rekstri samstæðunnar kemur ekki síst til vegna væntrar afkomu tveggja stærstu dótturfélaga borgarinnar, Félagsbústaða og Orkuveitu Reykjavíkur“, er haft eftir Hildi í tilkynningunni.

mbl.is/Jón Pétur

Samkvæmt fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2023 hafi matsbreyting á fjárfestingaeignum Félagsbústaða átt að skila tæpum 7,6 milljörðum króna á yfirstandandi ári. Reyndin sé sú að á fyrstu sex mánuðum ársins nemi matsbreyting einungis 580 milljónum króna. Að sama skapi hafi áætluð afkoma OR á árinu 2023 verið ríflega 13,3 milljarðar króna, en í reynd tapaði OR 795 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins.

Reksturinn farið stigversnandi

„Rekstur borgarinnar hefur farið stigversnandi síðustu árin. Tilteknir þættir í rekstri Félagsbústaða og Orkuveitu Reykjavíkur hafa hins vegar gert meirihlutanum kleift að blása í blöðruna og fegra myndina. Hækkandi álverð á heimsmörkuðum og sprenging í húsnæðisverði reyndust helstu ástæður þess að samstæða Reykjavíkuborgar skilaði jákvæðri niðurstöðu síðustu árin, jafnvel þó rekstur borgarinnar hafi í reynd farið versnandi með hverju árshlutauppgjörinu. Nú hins vegar er blaðran sprungin og ljóst hverjum sem vita vill, að rekstur borgarinnar er í molum. Ég fæ ekki séð að Framsókn hafi tekið í hornin á rekstrinum síðasta árið, það hefur ekkert breyst nema til hins verra,“ er jafnframt haft eftir Hildi í tilkynningu. 

Þá kemur fram, að önnur ástæða að baki þessari neikvæðu sveiflu í rekstri samstæðunnar sé verðbólga tímabilsins sem reyndist 5,3%. Áætlun borgarinnar fyrir tímabilið gerði hins vegar einungis ráð fyrir 2,8% hækkun.

„Ég varaði við þessu í umræðum um fjárhagsáætlun fyrir áramót. Verðbólguforsendur ársins fælu í sér stórkostlega bjartsýni. Það hefur nú komið á daginn og enn eina ferðina horfum við á áætlanir frá borginni sem standast enga skoðun“, segir Hildur.

Skuldir borgarinnar hækkað um tæpa 20 milljarða á fyrstu sex mánuðum ársins

Þá segir hún fulltrúa Sjálfstæðisflokks hafa gríðarlegar áhyggjur af versnandi fjárhag borgarinnar. Bæði rekstrargjöld og skuldir fari síhækkandi.

„Á fyrstu sex mánuðum ársins hafa skuldir borgarsjóðs hækkað um tæpa tuttugu milljarða, og skuldir samstæðunnar um tæpa 33 milljarða.“

Hildur tekur fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagt til við síðustu fjárhagsáætlun margvíslegar tillögur sem bætt gætu reksturinn.

„Við lögðum meðal annars til að rekstrargjöld yrðu skorin niður um 5%, ráðist yrði í eignasölu og aukin rekstrarútboð svo eitthvað sé nefnt. Það er skemmst frá því að segja að meirihlutinn sýndi engan vilja til að ráðast í raunverulegar aðgerðir til að taka á rekstrinum. Það er morgunljóst að þetta getur ekki haldið svona áfram, það mun bara enda á einn veg.“

mbl.is