„Við munum vaxa út úr vandanum“

„Við munum vaxa út úr vandanum“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir rekstrarniðurstöðu Reykjavíkurborgar á fyrri hluta þessa árs sýna jákvæðan viðsnúning A-hluta borgarsjóðs.

„Við munum vaxa út úr vandanum“

Fjárhagsörðugleikar Reykjavíkurborgar | 8. september 2023

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir rekstrarniðurstöðu Reykjavíkurborgar á fyrri hluta þessa árs sýna jákvæðan viðsnúning A-hluta borgarsjóðs.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir rekstrarniðurstöðu Reykjavíkurborgar á fyrri hluta þessa árs sýna jákvæðan viðsnúning A-hluta borgarsjóðs.

Rekstrarniðurstaða borgarinnar var tæplega 13 milljörðum lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Nam tap A- og B-hluta borgarinnar samtals 6,7 milljörðum á árshlutanum, en áætlað hafði verið að reksturinn yrði jákvæður um 6 milljarða. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs hafa skuldir borgarsjóðs aukist um tæplega 20 milljarða króna.

„Fyrirtæki borgarinnar og borgarsjóður verða þó fyrir áhrifum af óhagstæðum ytri aðstæðum eins og verðbólgu, gengi og lækkun álverðs í tilfelli Orkuveitunnar. Undirliggjandi rekstur er hins vegar sterkur,“ segir Dagur í svari sínu til Morgunblaðsins og bendir á að veltufé frá rekstri A- og B-hluta hafi numið 16,5 milljörðum króna á tímabilinu eða 13,5% af tekjum.

Fækka ekki starfsmönnum

Launakostnaður borgarinnar fór 2,1 milljarði fram úr áætlun. Spurður hvort til greina komi að fækka starfsmönnum borgarinnar segir Dagur að ef borgin gæti aðhalds við ráðningar þá muni tekjur borgarinnar vaxa hraðar en útgjöld í ljósi þess hversu mikil fjölgun á íbúum og fólki á vinnumarkaði hefur verið í Reykjavík undanfarin ár. „Við munum vaxa út úr vandanum,“ segir Dagur.

Spurður að því af hverju launakostnaður hafi farið úr böndunum segir hann það hafa verið vegna aukins stuðnings við börn af erlendum uppruna ásamt háu veikindahlutfalli og uppsafnaðri orlofstöku starfsfólks sem kallaði á aukna mönnun.

Skuldasöfnunin viðráðanleg

Borgin ætlar að koma á fót nefnd til að fara yfir og samþykkja allar ráðningar borgarinnar með það að markmiði að draga úr launakostnaði. Dagur segir að þetta hafi verið gert áður með góðri reynslu og gerir ekki ráð fyrir neinu öðru núna.

Spurður að því hvort skuldasöfnun borgarinnar sé viðráðanleg segir borgarstjórinn:

„Hlutfall hreinna skulda miðað við tekjur lækkar í þessu uppgjöri og borgin er með hlutfallslega lægri skuldir en nágrannasveitarfélögin og A-hluti ríkissjóðs, þannig að svarið við því er afdráttarlaust já.“

mbl.is