Þórdís Kolbrún: Salan á Íslandsbanka er forgangsmál

Þórdís Kolbrún: Salan á Íslandsbanka er forgangsmál

Sala ríkisins á hlut sínum í Íslandsbanka er forgangsverkefni sem til stendur að ráðast í á þessu ári. Stefnt er að almennu útboði í bankanum.

Þórdís Kolbrún: Salan á Íslandsbanka er forgangsmál

Sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka | 5. febrúar 2024

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sala ríkisins á hlut sínum í Íslandsbanka er forgangsverkefni sem til stendur að ráðast í á þessu ári. Stefnt er að almennu útboði í bankanum.

Sala ríkisins á hlut sínum í Íslandsbanka er forgangsverkefni sem til stendur að ráðast í á þessu ári. Stefnt er að almennu útboði í bankanum.

Þetta segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra í viðtali í hlaðvarpsþætti Þjóðmála. Íslenska ríkið á nú 42,5% hlut í Íslandsbanka eftir að hafa selt 35% hlut í almennu útboði sumarið 2021 og 22,5% hlut í lokuðu útboði í mars 2022. Seinna útboðið olli sem kunnugt er nokkrum deilum og hafði það í för með sér að beðið var með frekari sölu.

„Við erum með ákveðin forgangsverkefni, eins og það að klára að selja Íslandsbanka,“ segir Þórdís Kolbrún í hlaðvarpsþættinum. Hún nefnir í framhaldinu nokkur umbótaverkefni sem nú er unnið að innan fjármálaráðuneytisins, en meðal þeirra er að horfa til þess hvaða eignum ríkið situr á en þarf ekki að eiga að hennar mati.

„Ég veit það alveg að í þessari ríkisstjórn munu ákveðin mál ekkert fljúga í gegn, en það þýðir ekki að það sé ekki hægt að undirbúa ákveðin mál – hvort sem það er að selja Póstinn [Íslandspóst] auk þess sem fleiri viðurkenna það að einokunarverslun ríkisins á áfengi sé kannski ekki snjall framtíðarfyrirkomulag,“ segir Þórdís Kolbrún.

„Ef þú ætlar að grisja og fókusa á það sem ríkið á að sinna, þá hlýtur þú að leita allra leiða til að losa ríkið undan samkeppnisrekstri og losa ríkið við eignir sem aðrir eru betur til þess fallnir að halda utan um og búa til einhver verðmæti með. Þannig er hægt að umbreyta alls konar eignum sem ríkið situr á sem ætti að nota í annað hvort í beinar fjárfestingar í innviðum sem skipta allan almenning máli eða til að greiða niður skuldir.“

Stefnt að almennu útboði

Gísli Freyr Valdórsson, fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu og umsjónarmaður hlaðvarps Þjóðmála, spyr Þórdísi Kolbrún hvort að ráðist verði í söluna á þessu ári.

„Ég legg á það mikla áherslu að klára það verkefni á þessu ári,“ svarar Þórdís Kolbrún að bragði.

„Ég sé fyrir mér almennt útboð, algjörlega opið þar sem allur almenningur hefur kost á að taka þátt í. Eins einfalt og við getum og eins gagnsætt og við getum.“

Hægt er að nálgast þáttinn í spilara hér fyrir ofan, á öllum helstu hlaðvarpsveitum og á hlaðvarpsvef Morgunblaðsins.

mbl.is