„Verðum að tryggja að Grindvíkingar geti á ný haldið heimili“

Eldvirkni á Reykjanesskaga | 10. apríl 2024

„Verðum að tryggja að Grindvíkingar geti á ný haldið heimili“

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Eliza Reid forsetafrú heimsóttu Grindavík í dag í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá því að sveitarfélagið hlaut kaupstaðarréttindi.

„Verðum að tryggja að Grindvíkingar geti á ný haldið heimili“

Eldvirkni á Reykjanesskaga | 10. apríl 2024

Guðni flutti ávarp á hátíðarfundinum.
Guðni flutti ávarp á hátíðarfundinum. mbl.is/Arnþór

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Eliza Reid forsetafrú heimsóttu Grindavík í dag í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá því að sveitarfélagið hlaut kaupstaðarréttindi.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Eliza Reid forsetafrú heimsóttu Grindavík í dag í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá því að sveitarfélagið hlaut kaupstaðarréttindi.

Efnt var til lágstemmdra hátíðarhalda í Grindavík í dag, en vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga er fámennt í bænum. 

Heiðursviðurkenningar veittar

Haldinn var hátíðarfundur bæjarstjórnar í Gjánni í Grindavík. Þar voru heiðursviðurkenningar veittar til íbúa sem skilað hafa umfangsmiklu og mikilvægu framlagi til samfélagsins og þakkir færðar sjálfboðaliðum sem styrkt hafa stoðir samfélagsins í Grindavík.

Forseti Íslands flutti ávarp á hátíðarfundinum þar sem hann færði Grindvíkingum heillakveðjur og árnaðaróskir frá þjóðinni allri.

Heiðursviðurkenningar voru veittar á fundinum.
Heiðursviðurkenningar voru veittar á fundinum. mbl.is/Arnþór

Hafa sýnt æðruleysi

Í ávarpi sínu minntist forsetinn þess að hafa reglulega heimsótt Grindavík í embættistíð sinni. „Í hvert sinn hef ég fundið þann kraft, þá elju og þá samkennd sem hér hefur ríkt,“ segir Guðni.

Þá segir hann Grindvíkinga hafa þurft að þola miklar þrautir og að íbúar hafi sýnt æðruleysi, verið einbeittir, þrautseigir og þolgóðir.

Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur tók á móti Guðna.
Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur tók á móti Guðna. mbl.is/Arnþór

Framtíð bæjarins í óvissu

Guðni sagði framtíð bæjarins og samfélagsins vera í algerri óvissu en ekki væri tímabært að veita afdráttarlaus svör við afdrifaríkum spurningum varðandi framtíðina.

„Við vitum ekki hvenær eldsumbrotum og jarðhræringum linnir hér í grennd. Við vitum hins vegar með fullri vissu að við verðum að tryggja að Grindvíkingar geti á ný haldið heimili og höndlað hamingjuna, að Grindvíkingar geti áfram látið gott af sér leiða í eigin þágu og þjóðfélagsins alls.

Þetta skulum við gera saman, við Íslendingar. Við skulum ekki gefast upp.“

Að fundi loknum fóru forsetahjónin um Grindavík í fylgd með félögum í björgunarsveitinni Þorbirni og kynntu sér afleiðingar eldsumbrotanna á Reykjanesskaga á innviði bæjarins.

Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid.
Forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid. mbl.is/Arnþór
mbl.is