Ljósmyndararnir verða ekki sóttir til saka

Bíllinn sem Díana var í þegar hún lést.
Bíllinn sem Díana var í þegar hún lést. AP

Dómari í Frakklandi úrskurðaði í dag að níu ljósmyndarar, sem taldir voru hafa átt á einhvern hátt þátt í bílslysinu í Frakklandi sem Díana prinsessa lést í fyrir tveimur árum, yrðu ekki sóttir til saka.

Dómarinn sagði í úrskurði sínum, að slysið hefði orðið vegna þess að ökumaður bílsins var ölvaður og einnig undir áhrifum lyfja sem gerðu honum ókleift að halda stjórn á ökutækinu. Diana, vinur hennar Dodi Fayed og bílstjórinn, Henri Paul, létust öll 31. ágúst 1997 þegar bíllinn sem þau voru í ók á vegg í veggöngum. Trevor Rees-Jones lífvörður komst lífs af. Ljósmyndararnir og blaðamaður, sem fylgdu bílnum eftir á miklum hraða í von um að ná myndum af Díönu og Fayed, voru upphaflega ákærðir fyrir manndráp og að aðstoða ekki fólk í hættu eftir slysið. Herve Stephan rannsóknardómari fylgdi í úrskurðinum ráðleggingum franska ríkissaksóknarans að láta ákærurnar niður falla.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert