Bannað að gera grín að Bush í auglýsingu

Breska auglýsingaeftirlitið (BACC) tilkynnti í dag að það hefði bannað auglýsingu þar sem gert er grín að George W. Bush Bandaríkjaforseta og að sýning auglýsingarinnar verði einungis leyfð fái framleiðendur hennar samþykki forsetans fyrir því að hún verði sýnd.

Yfirmaður BACC segir ákvörðunina byggða á lögum um að ekki megi vísa til lifandi fólks í auglýsingum nema að fengnu leyfi þess en í auglýsingunni, sem er teiknuð, sést Bush taka DVD-disk og setja hann í brauðristina með orðunum; "Uppáhaldið mitt, skelltu þér nú í myndbandstækið."

Auglýsingunni er ætlað að kynna myndbandsspólur og DVD-diska með teiknimyndaþáttunum "2DTV" en í þeim er gert grín að stjörnum og sjórnmálamönnum.

Giles Pilbrow, framleiðandi þáttanna, segir fáránlegt að fara fram á það við gamanleikara að þeir biðji fólk um leyfi til að fá að gera grín að því. "Ég efast um að við getum fengið leyfi Bush, það er svolítið erfitt að ná í hann eins og stendur," segir hann. Þá segir hann að úrskurðurinn hljóti að þýða það að menn verði einnig að hafa samband við Osama bin Laden og Saddam Hussein ætli þeir að gera grín að þeim.

Auglýsingaeftirlitið bannaði einnig sýningar á samsvarandi auglýsingu þar sem gert er grín að fótboltakappanum David Beckham og eiginkonu hans, Victoriu, en í þeirri auglýsingu segir Beckham: "Victoria, hvernig skrifarðu DVD?"

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert