Fóru í frí til Kanaríeyja og skildu 11 ára dreng einan eftir

Bresk kona skildi 11 ára gamlan son sinn einan eftir heima en fór sjálf ásamt eiginmanni sínum og yngsta barni í jólafrí til Kanaríeyja 17. desember. Drengurinn komst ekki um borð í flugvélina á Manchester-flugvelli þar sem hann hafði ekki vegabréf meðferðis og móðir hans lét hann þá hafa húslykla og sendi hann heim í leigubíl.

Fram kemur á fréttavef BBC, að lögregla í Derbyshire staðfesti í dag að haft hefði verið samband við móður 11 ára gamals drengs og hún hefði flogið heim til Bretlands. Hefur hún verið yfirheyrð en var síðan sleppt. Nóg var af matvælum í íbúð fjölskyldunnar í Manchester. Hann dvaldi í íbúð nágranna sinna eina nótt en er nú í umsjón barnaverndaryfirvalda í Darbyshire.

Annað mál af svipuðu tagi kom upp um helgina þegar einstæð móðir hvarf og skildi 12 ára gamlan son sinn eftir í íbúð þeirra í Lundúnum í nærri hálfan mánuð. Drengurinn lét engan vita og sótti skóla eins og ekkert hefði í skorist. Konan fannst í gær og var handtekin en hefur síðan verið látin laus gegn tryggingu. Konan, sem þjáist af þunglyndi, mun gangast undir læknismeðferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert