Forngripasalar ákærðir fyrir að falsa kistu bróður Jesús

Steinkistan, sem sögð var kista bróður Jesús.
Steinkistan, sem sögð var kista bróður Jesús. AP

Þekktur forngripasafnari og fjórir aðrir forngripasalar voru í dag ákærðir í Ísrael fyrir að falsa fjölda muna, sem áttu að tengjast upphafsárum kristni. Meðal munanna var steinkista, sem sögð var innihalda bein Jakobs, bróður Jesús.

Auk steinkistunnar eru fornleifasalarnir einnig ákærðir fyrir að falsa steintöflu, sem sögð var úr musteri Salómons í Jerúsalem. Steinkistan sjálf er talin ófölsuð og er um 2 þúsund ára gömul, en áletrunin á henni: Jakob, sonur Jósefs og bróðir Jesús, er hins vegar fölsuð.

Munirnir voru „uppgötvaðir" í október árið 2002 og vakti þessi fornleifafundur að vonum mikla athygli um allan heim. Finnendurnir reyndu síðan að selja munina til safnara fyrir milljónir dala, en í júní á þessu ári komst ísraelska fornleifastofnunin hins vegar að þeirri niðurstöðu, að munirnir væru falsaðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert