Nýtt óperuhús tekið í notkun í Kaupmannahöfn

Kaupmannahafnarbúar horfa yfir höfnina á óperuhúsið.
Kaupmannahafnarbúar horfa yfir höfnina á óperuhúsið. AP

Danska konungsfjölskyldan var viðstödd þegar nýtt óperuhús var tekið formlega í notkun í Kaupmannahöfn í gærkvöldi með mikilli viðhöfn. Um 400 söngvarar, dansarar og leikarar fluttu verk eftir Giuseppi Verdi, Giacomo Puccini, Richard Strauss og dönsku tónskáldin Carl Nielsen og Poul Ruders. Hátíðin var sýnd beint í danska sjónvarpinu.

Húsið er á hafnarsvæðinu í Kaupmannahöfn. Það kostaði um 2,5 milljarða danskra króna, jafnvirði nærri 28 milljarða íslenskra króna. Danski milljarðamæringurinn Mærsk Mc-Kinney Møller, sem er 91 árs, bauð gesti velkomna en hann fjármagnaði bygginguna að mestu. Danski arkitektinn Henning Larsen teiknaði húsið sem tekur 1700 manns í sæti.

„Þú hefur skapað þjóðarminnismerki... þetta er einstök bygging," sagði Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra, við Mc-Kinney Møller.

Margrét Danadrottning, Friðrik krónprins, Mary krónprinsessa, Anna María fyrrum drottning Grikkja og Konstantín konungur, sigldu yfir höfnina til óperuhússins ásamt Mc-Kinney Møller.

Vefsvæði dönsku óperunnar

Friðrik krónprins og Mary krónprinsessa koma til opnunarinnar í gærkvöldi.
Friðrik krónprins og Mary krónprinsessa koma til opnunarinnar í gærkvöldi. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert