Bresk kona í fangelsi fyrir að nota nauðgunarlyf á ríka menn

Kona sem notaði nauðgunarlyfið Rohypnol til að „taka úr umferð“ bankastjóra og kvikmyndaleikstjóra hefur verið dæmd í fimm ára fangelsi. Talið er að hún sé fyrsta konan sem refsað er fyrir að brúka lyfið á menn.

Selina Hakki, sem er 37 ára, var dæmd í héraðsdómstólsins í Middlesex í morgun og flutt beint í dýflissuna. Hún mun hafa haft þúsundir punda af fórnarlömbum sínum sem hún fann á fremstu næturklúbbum London.

Eftir að hafa komið auga á ákjósanlegt fórnarlamb sem annað hvort var í sérsaumuðum lúxusfötum eða með dýrindis úr um úlnliðinn, beitti hin íturvaxna tveggja barna móðir kyssilegum vörum sínum, djúpri og beraðri brjóstaskorunni eða beruðu læri til að næla sér í heimboð í lúxusíbúðir þeirra.

Þegar þangað var komið vildi hún hefja rauðvínsdrykkju og bætti lyfinu út í glas fórnarlambsins og hvatti það til að drekka í botn. Rauða vínið notaði hún til að hylja hinn bláleita keim lyfsins og á nokkrum mínútum „lágu þau steinrotuð,“ eins og dómari komst að orði.

Er þeir rönkuðu við sér mörgum klukkustundum seinna var freistingin á burt og margt af dýrmætum eigum þeirra líka. Hakki - sem er fædd og uppalin í Guyana og býr í Bow austur af London - var sakfelld fyrir að hafa leikið þannig á tvo tilgreinda menn á tímabilinu frá í maí 2002 til ágúst 2003; byrlað þeim lyf og síðan rænt þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert