29 lík fundust á Sri Lanka þar sem flóðbylgjan fór yfir farþegalest

Íbúar kanna skemmdir í strandsvæðum Colombo, höfuðborgar Sri Lanka eftir …
Íbúar kanna skemmdir í strandsvæðum Colombo, höfuðborgar Sri Lanka eftir flóðbylgjuna. AP

Lögregla og íbúar á Sri Lanka leituðu í dag vandlega á staðnum þar sem flóðbylgjan mikla 26. desember hreif með sér farþegalest. Fundust 29 lík á svæðinu en talið er að um 1500 manns hafi verið í lestinni þegar flóðbylgjan skall á henni.

Að minnsta kosti 100 lögreglumenn og óbreyttir borgarar leituðu á svæðinu nálægt Telwatte í suðurhluta Sri Lanka þar sem lestin var á ferð þegar flóðbylgjan skall á strönd landsins. Um 900 lík fundust á svæðinu skömmu eftir hamfarirnar en óvíst er hve margir létu lífið. Stjórnvöld telja að 2-300 manns kunni að hafa sloppið lifandi þegar sjórinn skall á lestinni.

Talið er að nærri 31 þúsund manns hafi farist á Sri Lanka þegar flóðbylgjan reið þar yfir og um 1 milljón manna missti heimili sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert