42 ólöglegir innflytjendur handteknir á Sikiley

Lögregla á Ítalíu handtók í gær 42 ólöglega innflytjendur sem komu sjóleiðina til Sikileyjar, og er nú leitað að tveimur öðrum sem talið er að hafi fallið frá borði skömmu áður en báturinn kom til Sikileyjar. Innflytjendurnir fundust nærri bænum Licata og er talið að þeir hafi borgað fyrir að láta smygla sér til Ítalíu frá norðurhluta Afríku.

Fólk sem kemur til Ítalíu án þess að hafa leyfi til að vinna eða starfa í landinu er oftast sent aftur til síns heima. Fólkið segist vera frá Pakistan og Írak, en það hefur verið tekið til yfirheyrslu.

Fyrr í þessum mánuði létust 11 ólöglegir innflytjendur þegar þeir reyndu að synda í land nærri bænum Gela á Sikiley. 148 var bjargað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert