CIA-flugvélar sagðar hafa lent á Grænlandi

Svo virðist sem fangaflutningaflugvélar á vegum bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, hafi lent á Grænlandi á leið sinni yfir Atlantshafið. Danskir fjölmiðlar fullyrða þetta og er vitnað til upplýsinga frá Flugmálastjórn frá Íslandi sem Frank Aaen, þingmaður Einingarlistans, hefur fengið í hendur. Segir að þrjár flugvélar frá leppfyrirtækjum CIA hafi lent samtals fjórum sinnum á grænlenskum flugvöllum árin 2003 og 2004.

Landsstjórn Grænlands hefur óskað eftir því að danska ríkisstjórnin upplýsi hvort CIA hafi nýtt sér flugvelli á landinu til að flytja meinta hryðjuverkamenn milli landa.

Fréttastofan Ritzau hefur eftir Aaen, að hann sé undrandi yfir því svari sem hann hafi fengið frá Flugmálastjórn í ljósi þess að dönsk stjórnvöld hafi ekki getað veitt upplýsingar um flugvélarnar þrjár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert