Eitt af fangelsum CIA talið vera í Rúmeníu

Florin Putanu, næst æðsti yfirmaður Mihail Kogalniceanu herstöðvarinnar.
Florin Putanu, næst æðsti yfirmaður Mihail Kogalniceanu herstöðvarinnar. AP

Talið er líklegt að eitt af leynilegum fangelsum bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, hafi verið í Mihail Kogalniceanu herstöðinni í suðurhluta Rúmeníu. Bandaríska dagblaðið Seattle Times segir jafnt háttsetta embættismenn í Rúmeníu sem yfirmenn í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna í Pentagon neita staðfastlega fréttum þess efnis að bandarískar flugvélar hafi lent með fanga á vellinum og yfirheyrt þá í herstöðinni vegna gruns um aðild að hryðjuverkum.

Blaðið vitnar til Florins Putanu, yfirmanns í rúmenska hernum og næst æðsta yfirmanns á herstöðinni, sem segir ógerning að bandarísk fangaflutningavél hafi lent á vellinum með fanga.

Seattle Times bendir á að bandarískar flugvélar hafi mörgum sinnum millilent á flugvellinum á árunum 2001 til 2003 með hermenn og búnað á leið til Afganistans og Íraks.

Vitnað er í Ioans Mirceas Pascus, varnarmálaráðherra Rúmeníu á árunum 2001-2004, sem sagði í samtali við fréttastofuna Associated Press, að rúmensk yfirvöld hefðu ekki aðgang að hluta herstöðvarinnar og að leyniþjónusta landsins hefði ekkert vald yfir henni. Þá sagðist hann jafnframt ekki geta sagt hvort fangar hafi einhvern tíma verið vistaðir í herstöðinni. Engu að síður viðurkenndi hann að vel geti verið að fangaflugvélar hafi lent á vellinum á leið sinni til fangabúða bandaríska hersins í Guantanamoflóa á Kúbu.

Evrópsk mannréttindasamtök rannsaka fangaflugið
Svissneski lögfræðingurinn Dick Marty, sem leiðir rannsókn á meintu fangaflugi vinnur nú að því að fá gervitunglamyndir af herstöðinni í Rúmeníu og af Szczytno-Szymany flugvellinum í Póllandi. Að sögn mannréttindasamtakanna Human Rights Watch er talið mjög líklegt að fangaflugvélar leyniþjónustunnar hafi lent á flugvöllunum. Þá hefur Marty farið fram á við flugmálayfirvöld í Evrópu að þau afli upplýsinga um 31 flugvél sem talin er tengjast CIA með beinum eða óbeinum hætti.

Að sögn Human Rights Watch lentu nokkrar flugvélar leyniþjónustunnar á flugvöllunum í Rúmeníu og Póllandi en upplýsingar samtakanna byggjast á flugskrám CIA á árunum 2001 til 2004. Þar kemur fram að ein flugvélanna sem lenti við herstöðina í Rúmeníu hafi verið að koma frá Kabúl í Afganistan. Aðrar vélar sem lentu á vellinum voru að koma frá Mallorca á Spáni, Larnaca á Kýpur, Shannon á Írlandi og Ramstein herstöðinni í Þýskalandi. Seattle Times greinir jafnframt frá því að fangaflugvélar CIA hafi ýmist lent eða farið yfir Austurríki, Danmörku, Ísland, Noreg og Svíþjóð og sé rannsókn í undirbúningi á flugi vélanna. Þá hermi óstaðfestar fregnir að flugvélarnar hafi ýmist lent eða farið yfir Makedóníu og Möltu.

Rúmenar reiðir
Stjórnmálamenn í Rúmeníu eru sagðir ævareiðir yfir því að fangaflugvélar CIA hafi lent á flugvellinum við Mihail Kogalniceanu herstöðina og segja að komi í ljós að fangar hafi sætt pyntingum í herstöðinni geti það dregið úr líkum þess að landið fái aðild að Evrópusambandinu árið 2007.

EIN þeirra flugvéla sem nefndar hafa verið í tengslum við …
EIN þeirra flugvéla sem nefndar hafa verið í tengslum við fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, lenti á Reykjavíkurflugvelli fyrir skömmu. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert