Segir refsiaðgerðum verði beitt komi í ljós að leynileg fangelsi séu í ESB-ríkjum

Franco Frattini, sem fer með dómsmál og innanríkismál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sagði í dag að ef í ljós kæmi að leynileg fangelsi á vegum bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, væru starfandi í aðildarríki eða ríkjum sambandsins gætu viðkomandi ríki átt von á hörðum refsiaðgerðum, þar á meðal að missa atkvæðisrétt sinn innan ESB.

„Ég væri skuldbundinn til að leggja til við ráðherraráðið að gripið yrð til alvarlegra aðgerða, þar á meðal að svipta viðkomandi ríki atkvæðisrétti í ráðherraráðinu," sagði Frattini á ráðstefnu í dag.

Evrópuráðið er að láta rannsaka fréttir um að CIA hafi komið á fót leynilegum fangelsum, svonefndum svartholum, í nokkrum Evrópulöndum og flutt þangað fanga, sem grunaðir eru um aðild að hryðjuverkasamtökum. Talið er að við þessa fangaflutninga hafi verið notaðar flugvélar í eigu leppfyrirtækja CIA og þessar vélar hafi m.a. millilent hér á landi. Hefur Evrópuráðið hvatt ríkisstjórnir aðildarríkja sinna til að veita upplýsingar um málið.

Leynilegar fangabúðir brytu gegn mannréttindasáttmála Evrópu sem öll Evrópuríki eiga aðild að.

Ásakanir um að CIA hefi komið sér upp leynilegum fangelsum í nokkrum Austur-Evrópuríkjum komu fyrst fram í blaðinu Washington Post í byrjun nóvember. Blaðið nefndi ekki löndin en skömmu síðar sögðust mannréttindasamtökin Mannréttindavaktin hafa vitneskju um að CIA hafi flutt meinta hryðjuverkamenn, sem handteknir voru í Afganistan, til Póllands og Rúmeníu.

Frattini segist hafa Vasile Blaga, innanríkisráðherra Rúmeníu, sem hafi fullvissað hann um að ekkert væri hæft í fréttum um að fangabúðir af þessu tagi væru í landinu.

Frattini hafði eftir ráðherranum, að herstöð í Mihail Kogalniceanu, sem Bandaríkjaher notaði á árunum 2001-2003 til að flytja herlið og búnað til Afganistans og Íraks, væri ekki notuð sem fangabúðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert