Rice segir upplýsingaöflun CIA hafa komið í veg fyrir árásir

Condoleezza Rice.
Condoleezza Rice. AP

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að upplýsingar sem bandaríska leyniþjónustan CIA hefur aflað, hafi verið nýttar til að koma í veg fyrir hryðjuverkaárásir í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar. Rice, sem er að leggja af stað í Evrópuför, var með þessum ummælum að svara gagnrýni sem komið hefur fram í Evrópu á harðneskjulegar aðferðir, sem CIA hefur beitt í yfirheyrslum yfir meintum hryðjuverkamönnum.

Rice sagði að Bandaríkin myndu beita öllum löglegum ráðum til að vinna sigur á hryðjuverkamönnum. Hún svaraði hins vegar að svara þeirri spurningu í morgun hvort Bandaríkin og CIA hefðu rekið leynileg fangelsi í tilteknum ríkjum í Austur-Evrópu.

„Við getum ekki rætt um upplýsingar sem gætu grafið undan starfi og aðgerðum leyniþjónustu, lögreglu og hers. Við reiknum með að aðrar þjóðir séu sömu skoðunar," segir Rice í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér á Andrews herflugvellinum í Maryland í dag.

Rice sagði að upplýsingar, sem bandaríska leyniþjónustan hefði aflað hjá mjög litlum hópi afar hættulegra fanga hefðu átt þátt í að tókst að koma í veg fyrir hryðjuverkaárásir og þannig bjargað mannslífum í Evrópu og Bandaríkjum og fleiri löndum.

Evrópusambandið hefur krafið bandarísk stjórnvöld skýringa á fréttum um að rekin séu leynileg fangelsi á vegum CIA í ákveðnum Evrópulöndum vegna þess að í þeim ríkjum séu reglur um meðferð fanga ekki eins strangar og í Bandaríkjunum.

Rice sagði að Bandaríkin leyfðu ekki og liðu ekki pyntingar fanga undir neinum kringumstæðum. „Bandaríkin nota ekki lofthelgi eða flugvelli neinna ríkja til að flytja fanga ef við teljum að þeir verði pyntaðir. Varðandi fanga þá virðir ríkisstjórn Bandaríkjanna lög og stjórnarskrá landsins og þær skuldbindingar sem alþjóðasamningum fylgja. Það er stefna Bandaríkjanna að þessar yfirheyrslur fari fram... án pyntinga," segir Rice í yfirlýsingunni.

Rice segir einnig, að Bandaríkin hafi virt fullkomlega fullveldi annarra ríkja varðandi þessi mál. „Bandaríkin eru réttarríki. Ég og starfsfélagar mínir höfum svarið þess eið að vernda og virða stjórnarskrá Bandaríkjanna... Bandaríkin verða að vernda sína borgara," sagði Rice. Fréttaskýrendur segja þessi ummæli benda til þess að Austur-Evrópuríki, sem kunni að hafa leyft CIA að reka fangelsi, hafi gert það vísvitandi.

Rice segir einnig í yfirlýsingunni að Bandaríkin flytji ekki og hafi ekki flutt fanga frá einu landi til annars í þeim tilgangi að þeir verðir pyntaðir við yfirheyrslur. Mannréttindasamtök í Bandaríkjunum og víðar hafa sakað bandaríkin um að leyfa það að fangar séu fluttir til ríkja eins og Egyptalands og Sádi-Arabíu þar sem harðneskjulegum yfirheyrsluaðferðum er beitt. Rice sagði að Bandaríkin hefðu hins vegar lengi tekið þátt í því að flytja meinta hryðjuverkamenn milli landa.

Heimsókn Rice til Evrópu stendur í fimm daga. Hún mun m.a. heimsækja Rúmeníu en talið er líklegt að þar í landi sé að finna eitt af leynilegu CIA fangelsunum þótt þarlend stjórnvöld vísi því á bug. Rice mun eionnig heimsækja Þýskaland, Úkraínu og Belgíu. Tilgangur ferðarinnar er að bæta samskipti Bandaríkjanna og Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert