Gríska þingið samþykkir lög sem heimila líkbrennslu

Bein manna eru sett í kassa að þremur árum liðnum …
Bein manna eru sett í kassa að þremur árum liðnum í kirkjugarði í Aþenu þar sem kirkjugarðar eru yfirfullir. Ljósmyndin var tekin í dag. Reuters

Gríska þingið hefur samþykkt lög sem heimila líkbrennslu í landinu í stað greftrunar. Gríska rétttrúnaðarkirkjan hefur fram til þessa verið á móti líkbrennslu og sagt hana óvirðingu við mannslíkamann. Þingmenn virðast hins vegar ekki á sama máli en tíu ár tók að ná málinu í gegn.

Fyrsta líkbrennsluhús landsins verður því reist á næstunni. Lögin eru þó takmörkuð, í því skyni að friðþægja kirkjunnar menn, við fólk þeirra trúa sem heimila líkbrennslu. Það er því algjör minnihluti grísku þjóðarinnar sem getur látið brenna jarðneskar leifar sínar.

Stuðningsmenn laganna telja að kirkjan eigi eftir að láta af andstöðu sinni þegar vilji fólksins kemur í ljós. Kirkjugarðar höfuðborgarinnar Aþenu eru þegar orðnir yfirfullir og þarf oft að grafa líkkistur upp til þess að búa til pláss fyrir fleiri. Það hefur valdið ættingjum hinna látnu mikilli sálarangist. Fréttavefur BBC greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert