ESB segir peninga ekki munu flæða til óbreyttra Hamas-samtaka

Ungur stuðningsmaður palestínsku Fatah-hreyfingarinnar heldur á fána með mynd af …
Ungur stuðningsmaður palestínsku Fatah-hreyfingarinnar heldur á fána með mynd af Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínumanna. AP

Benita Ferrero-Waldner utanríkisráðherra Evrópusambandsins (ESB), sagði í dag, að það muni grafa undan heimastjórn Palestínumanna undir forsæti Hamas-samtakanna, leiti samtökin ekki leiða til að ná friði við Ísraela í fyrirsjáanlegri framtíð. Þá sagði hún samtökin verða að viðurkenna tilverurétt Ísraelsríkis, láta af ofbeldisaðgerðum í baráttu sinni fyrir réttindum Palestínumanna og virða þá samninga sem fyrri heimastjórn Palestínumanna gerði. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

„Við viljum vera traustur samherji Palestínumanna en við munum ekki gefa eftir í grundvallarsjónarmiðum okkar,” sagði hún. „Peningar munu ekki flæða til nýrra valdhafa nema þeir leiti leiða til að koma á friði eftir friðsamlegum leiðum.”

Ferrero-Walder sagði sambandið þó reiðubúið til að veita samtökunum ákveðið svigrúm til að laga sig að breyttum aðstæðum andstætt Bandaríkjunum og Ísrael sem frystu allan fjárstuðning við yfirvöld á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum eftir að Ismail Haniyeh, einn af leiðtogum Hamas-samtakanna var útnefndur forsætisráðherra.

Utanríkisráðherrar aðildarlandanna sitja nú á tveggja daga fundi um það hvernig sambandið geti haldið áfram fjárstuðningi við Palestínumenn, en jafnframt þrýst á Hamas-samtökin sem unnu mikinn sigur í kosningum á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna í janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert