Breskt blað birti viðtal við grunaðan morðingja

Mikil leit hefur verið gerð að manni sem myrti fimm …
Mikil leit hefur verið gerð að manni sem myrti fimm vændiskonur í Ipswich. Reuters

Breska blaðið Sunday Mirror birti í gær viðtal við Tom Stephens, 37 ára gamlan karlmann, sem sagðist hafa þekkt allar konurnar fimm, sem fundust látnar í nágrenni Ipswich á Englandi. Sagðist Stephens hafa verið yfirheyrður af lögreglu nokkrum sinnum. Í morgun handtók lögregla Stephens og segir að hann sé grunaður um að hafa myrt allar konurnar fimm.

Stephens, sem er 37 ára, var handtekinn klukkan 7:20 í morgun á heimili sínu í þorpinu Trimley St. Martin, skammt frá hafnarbænum Felixstowe. Er hann í haldi á lögreglustöð í Suffolk og verður yfirheyrður þar í dag.

Í viðtalinu við Sunday Mirror segir Stephen, að óneitanlega gæti lýsing á meintum morðingja kvennanna átt við sig en atferlisfræðingar lögreglu töldu að morðinginn væri hvítur karlmaður á aldrinum 25-40 ára, þekkti vel til á svæðinu og ynni fyrir utan venjulegan vinnutíma. Sagði Stephens einnig, að lík nokkurra af konunum hefðu fundist nálægt húsi hans.

„Ef nýjar upplýsingar, tilviljanakenndar upplýsingar, koma fram gæti svo farið að ég yrði handtekinn," er haft eftir Stephens en hann segist jafnframt viss um að hann verði ekki ákærður.

Trimley er 13 km suðaustur af Ipswich þar sem allar konurnar fimm stunduðu vændi.

Tom Stephens. Myndin er tekin af netsíðu.
Tom Stephens. Myndin er tekin af netsíðu. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert