Veiktist af krabbameini eftir að hafa faðmað föður sinn

Bresk kona hefur unnið skaðabótamál sem hún höfðaði gegn breska varnarmálaráðuneytinu, en hún hélt því fram að hún hefði fengið krabbamein með því að hafa faðmað föður sinn, en hann starfaði á slipp sjóhersins þegar hún var ung stúlka.

Debra Brewer, sem er 47 ára gömul, krafðist 75.000 punda (rúmar 9 milljónir kr.) í skaðabætur frá breska varnarmálaráðuneytinu þegar í ljós kom að hún væri komin með krabbamein eftir að hafa orðið fyrir asbestmengun.

Hún hélt því fram að hún hefði aðeins getað komist í snertingu við efnið í gegnum föður sinn, en hann starfaði í slippnum hjá breska sjóhernum í Plymouth, á Suðvestur-Englandi, í fimm ár á sjöunda áratugnum.

Dánarstjóri komst að því að faðir hennar, sem lést í ágúst sl., hafi látist úr lungnakrabbameini sem rekja megi til asbestmengunar.

Varnarmálaráðuneytið viðurkenndi skaðabótaskylduna og samþykkti að greiða Brewer skaðabætur, en ekki liggur fyrir að svo stöddu hversu háar þær muni á endanum vera.

Brewer fór fyrst að finna fyrir öndunarerfiðleikum árið 1994 en hún var ekki greind fyrr en í nóvember í fyrra. Þá hefur læknirinn hennar greint henni frá því að hún eigi aðeins nokkra mánuði eftir ólifaða, og hefur Brewer sagt að skaðabæturnar muni rata í hendur barnanna hennar þriggja.

Þá sagði hún í samtali við breska ríkissjónvarpið BBC að þegar hún var lítið barn hafi hún oft leikið við föður sinn þegar hann var enn klæddur í vinnugallanum sem var þakin ryki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert