Foreldrar nýbura missa tveggja mánaða svefn á fyrsta árinu

Nýburar á fæðingardeild Landspítalans
Nýburar á fæðingardeild Landspítalans mbl.is/Jim Smart

Foreldrar nýfæddra barna missa allt að tveggja mánaða svefn á fyrsta árinu eftir að barnið fæðist, samkvæmt niðurstöðu nýrrar breskrar könnunar. Fimm hundruð nýbakaðir foreldrar tóku þátt í könnuninni sem leiddi í ljós að þriðjungur nýbakaðra foreldra missir 90 mínútna svefn á nóttu sem jafngildir heilli nóttu á viku 68 nóttum á ári. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Fram kemur í könnuninni að mæður missi meiri svefn en feður vegna ungra barna sinna og að um helmingur foreldranna deila um það sín á milli hvort þeirra hafi misst meiri svefn. Þá segir fjórðungur foreldranna, sem þátt tóku í könnuninni næturbröltið hafa valdið álag í sambandinu.

42% mæðranna segist bregðast við gráti barnsins innan 30 sekúndna en 68% þeirra segja feðurna bregðast fimm mínútum seinna við grátinum en þær sjálfar. Einungis 1% mæðranna segist hins vegar geta sofið þegar barnið grætur en 43% þeirra segja maka sinn geta það.

Fimmta hvert par segist hafa vaknað til barnsins fjórum sinnum á nóttu fyrsta árið eftir fæðingu þess og segja ljósmæðurnar, sem stóðu að rannsókninni, það vera foreldrar frumburða, sem missi hvað mestan svefn eftir fæðingu barnsins.

Við eins árs aldur sofa 38% barna enn ekki alla nóttina og 15% foreldra eins og tveggja ára barna segjast enn verða fyrir reglulegum svefntruflunum vegna barna sinna. Þá segjast rúmlega 57% foreldra sofa lausar eftir að hafa eignast barn og 11% segjast eiga erfitt með að svefn, jafnvel þótt barnið sofi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert