Skotmaðurinn sagður hafa leitað að vinkonu sinni í skólanum

Lögreglumenn við bygginguna þar sem skotárás var gerð í dag.
Lögreglumenn við bygginguna þar sem skotárás var gerð í dag. AP

Breska Sky fréttastofan segir, að maðurinn, sem varð tugum manna að bana í háskóla í Blacksburg í Virginíu í Bandaríkjunum hafi komið í skólabyggingu í morgun í leit að vinkonu sinni. Maðurinn var vopnaður og með mikið magn af skotfærum. Að sögn sjónarvotta lét hann fólk stilla sér upp og skaut síðan á það.

Að sögn bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar Fox létu að minnsta kosti 32 lífið, þar á meðal árásarmaðurinn. Ekki er ljóst hvort hann var nemandi við skólann og ekki heldur hvort hann svipti sig lífi eða hvort lögregla skaut hann til bana.

Þetta er mesta mannfall, sem orðið hefur í skotárás í bandarískum skóla. George W. Bush, Bandaríkjaforseti, sagðist harmi lostinn vegna árásarinnar.

Skotárásirnar voru í raun tvær. Sú fyrri var gerð klukkan 7:15 að staðartíma í West Ambler Johnston byggingunni, sem er heimavist þar sem 895 manns búa. Þar lét einn lífið. Tveimur tímum síðar var önnur skotárás gerð í Norris Hall, verkfræðibyggingu á skólalóðinni og þar biðu tugir bana. Sami maður var að verki í bæði skiptin, að sögn lögreglu.

Alls eru um 26 þúsund námsmenn í Virginia Tech.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert