Valdatíð borgarstjórans lengd

Borgarstjórinn í Moskvu getur fagnað því að fá að vera …
Borgarstjórinn í Moskvu getur fagnað því að fá að vera við völd í fjögur ár til viðbótar. Reuters

Borgarstjórn Moskvuborgar samþykkti með miklum meirihluta tillögu frá forseta landsins, Vladimir Putin þess efnis að framlengja valdatíð borgarstjórans um fjögur ár umfram hámarkstímann sem er fimmtán ár. Júrí Luzhkov hefur breytt Moskvu í eina af mestu athafnaborgum Evrópu en kosningar í borgar- og sveitastjórnir hafa ekki verið haldnar síðan 2005, þess í stað eru menn tilnefndir af Putin.

Stuðningsmenn Luzhkov hafa hrósað honum fyrir að hafa gjörbreytt miðborginni frá hnignun á tímum Sovétlýðveldisins í nýtískulega stórborg með kaffihúsum, hönnuðum byggingum og spennandi næturlífi sem laðar til sin fjárfesta.

Gagnrýnendur hafa sagt hann hafa ýtt undir hinar verstu hliðar rússneska kapítalismans. Eitt umkvörtunarefnið er að hann hafi ekki verndað grænu svæði borgarinnar eða tekist að höndla umferðarvandann.

Eiginkona hans, Jelena Baturina er milljarðamæringur og ríkasta kona Rússlands og á hún fjölmörg fyrirtæki, hótel og verksmiðjur og hafa hennar fyrirtæki fengið fjölmarga samninga og verkefni á vegum borgarinnar í borgarstjórnartíð eiginmannsins.

Gagnrýnendur hafa sagt að Luzhkov hafi ekki sinnt húsæðismálum hins almenna borgara en þess í stað gert allt til að laða hina ríku til borgarinnar einnig hefur hann verið harðlega gagnrýndur fyrir andstöðu sína við samkynhneigða og hefur hann bannað gleðigöngur eða Gay Pride í borginni og sagt þær vera verk Satans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert