Fjandsamlegar móttökur virtust slá Ahmadinejad út af laginu

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, er hann ávarpaði nemendur í Columbia-háskólanum …
Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, er hann ávarpaði nemendur í Columbia-háskólanum í New York í Bandaríkjunum í dag. AP

Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti fékk kaldar móttökur er hann ávarpaði nemendur Columbia-háskóla í New York í Bandaríkjunum í dag. Lee Bollinger skólastjóri, sem sætt hefur harðri gagnrýni fyrir að bjóða honum í skólann sagði m.a. í kynningu sinni að forsetinn virtist ekki vera neitt annað en „aumur og grimmur einvaldur".

Fréttaskýrendur segja að forsetinn hafi borið sig vel framan af en að svo virðist sem fjandsamleg framkoma Bollinger og nemenda hans hafi smátt og smátt slegið hann út af laginu.

Bollinger sagði einnig að forsetinn gæti hugsanlega blekkt ómenntaðan almúgann í heimalandi sínu en að staðhæfingar hans um að ekki væri allt sem sýndist varðandi helförina gegn gyðingum og hryðjuverkin í Bandaríkjunum, hljómuðu fáránlega í eyrum upplýsts nútímafólks.

Ahmadinejad staðhæfði m.a. að hann hefði viljað fara að grunni Tvíburaturnanna til að sýna samúð sína með fórnarlömbum hryðjuverkanna í Bandaríkjunum árið 2001. Hann varðaði þó jafnframt fram efasemdum um að ábyrgðin á árásunum hefði legið utan Bandaríkjanna. „Af hverju gerðist þetta? Hvað olli því,” spurði hann. “Hvaða aðstæður leiddu til þess og hver bar í raun ábyrgðina a því?”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert