Húsleit gerð hjá fyrrum lífvörðum Karadzic

Ratko Mladic og Radovan Karadzic
Ratko Mladic og Radovan Karadzic RANKO CUKOVIC

Lögreglan í Bosníu-Serbíu gerði húsleit á heimilum tveggja fyrrverandi lífvarða Radovan Karadzic, fyrrum leiðtoga Bosníu-Serba, í dag. Karadzic er ákærður fyrir þjóðarmorð og stríðsglæpi, þar á meðal fyrir morð á nærri 8.000 múslimum í Srebrenica árið 1995.

Lífverðirnir, Zeljko Maljukan og Dusko Mihajlovic, störfuðu hjá Karadzic  á tímum Bosníustríðsins 1992-95. Eru þeir grunaðir að vera liðsmenn hóps sem hefur aðstoðað stríðsglæpamanninn við að fara huldu höfði undanfarin ár. Vonaðist lögregla til þess að finna einhverjar upplýsingar við húsleitina sem gæfu til kynna hvar hann væri að finna og um leið að auka þrýsting á stuðningsmenn Karadzic um að hætta að aðstoða hann.

Á sama tíma leitaði lögregla í Svartfjallalandi á heimili fjölskyldu Karadzic og yfirheyrði frænda hans, Dragan Karadzic.

Karadzic er auk herforingjans Ratko Mladic, ákaft leitað en ekki hefur tekist að hafa hendur í hári þeirra þrátt fyrir að bandarísk stjórnvöld hafi heitið hverjum þeim sem geti veitt upplýsingar um þá og tvo aðra sem eru einnig ákærðir fyrir stríðsglæpi, Stojan Zupljanin og Goran Hadzic, 5 milljónum Bandaríkjadala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert