Ólympíueldurinn á leið til höfuðborgar Tíbets

Undirbúningur stendur yfir í Lhasa, höfuðborg Tíbets, fyrir komu ólympíukyndilsins á morgun.  Þrír mánuðir eru liðnir frá því óeirðir brutust út í borginni, í kjölfar mótmælaaðgerða tíbetskra munka gegn kínverskum stjórnvöldum. 

Hlaupið verður ellefu kílómetra langt og hefst það hjá Norbulingka, fyrrum sumarhöll Dalai Lama, og lýkur hjá Potala höllinni, fyrrum vetrardvalarstað leiðtoga Tíbeta sem trónir á brattri hæð upp af höfuðborg Tíbets.

Í China News Daily dagblaðinu, kemur ekki fram hvort sérstakar öryggisráðstafanir hafi verið gerðar í tengslum við hlaupið.  Samkvæmt upplýsingum AP fréttastofunnar voru verslanir í höfuðborginni opnar í dag og fólk á ferli, og búið var að hengja upp borða með stuðningsyfirlýsingum við Kína og Ólympíuleikana.  Lögregla er áberandi á götum borgarinnar og óeirðalögregla stendur vörð í miðborginni.  Þá kemur fram að lögregla stöðvaði myndatökumann á vegum AP og skipaði honum að þurrka út myndir sem hann hafði tekið af öryggisgæslumönnum.  

Alþjóðlegu mannréttindasamtökin Amnesty gagnrýna kínversk stjórnvöld fyrir að hafa ekki enn leyft erlendum fjölmiðlum óþvingaðan aðgang að landinu.  Segja Amnesty að hundruð mótmælenda hafi verið handteknir og pyntaðir í kjölfar mótmælanna.  Kínverjar neita ásökununum og segja samtökin ekki trúverðug.  Fréttaskýrendur, sem hafa heimsótt Lhasa, segja greinilegt að íbúar borgarinnar óttist að tala við erlenda fréttamenn.

För kyndilsins hefur orðið fyrir nokkrum töfum í erlendum borgum vegna mótmælaaðgerða gegn stefnu kínverskra yfirvalda í Tíbet.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert