Obama stofnar loftslagsklíku

Mótmælandi á Spáni ber grímu með mynd af Barack Obama …
Mótmælandi á Spáni ber grímu með mynd af Barack Obama forseta Bandaríkjanna. Reuters

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur boðið leiðtogum 16 iðnvæddra ríkja til ráðstefnu um loftslagsbreytingar í Washington í lok apríl. Segja talsmenn Hvíta hússins að ráðstefnan muni marka upphaf nýrrar umræðu um orku og loftslagsmál. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Til stendur að leiðtogarnir ræði leiðir til að auka framleiðslu umhverfisvænnar orku og draga úr gróðurhúsaáhrifum. Stefnt er að því að fundurinn verði sá fyrsti í fundaröð sem hefur það að markmiði að ná samkomulagi um nýjan loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna fyrir loftslagsráðstefnu sem haldin verður í Kaupmannahöfn í desember. 

Stefnt er að því að næsti fundur ríkjanna sextán verði haldinn á Ítalíu í júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert