Þjóðaratkvæði um réttindi dýra fyrir dómi

Svisslendingar ganga að kjörborðinu í dag þegar fram fer þjóðaratkvæðagreiðsla um aukin réttindi til handa dýrum. Tillagan sem greitt verður atkvæði um gengur út á að lögfræðingar geti talað máli dýra fyrir rétti. Fjallað er um málið á vef breska ríkisútvarpsins.

Talsmenn dýraverndarhópa segja að með því að skipa sérstakan réttargæslumann dýra verði hægt að tryggja að farið sé að dýraverndarlögum auk þess að koma í veg fyrir illa meðferð á dýrum. Andstæðingar tillögunnar eru þeirrar skoðunar að ekki sé þörf á fleiri lögum sem tryggi dýravernd í Sviss.  Stjórnvöld í Sviss hafa hvatt kjósendur til þess að hafna tillögunni.

Ströng dýraverndarlög eru þegar í gildi í Sviss. Síðan 1992 hefur í Zurich verið skylda að veita dýrum réttargæslumann þegar ásakanir um illa meðferð á dýrum hafa verið til umfjöllunar. Einn þeirra sem tekið hefur að sér að gæta lagalegra hagsmuna dýra er Antoine Goetschel, en hann hefur farið með mál fyrir dóm fyrir hönd hunda, katta, kúa, kinda og fiska.

Að hans mati er grundvallaratriði að þeir sem geti ekki tjáð sig sjálfir fái sér málsvara.
„Dýr eru, í mínum huga, viðkvæmustu verurnar í samfélagi okkar og það verður að gæta réttar þeirra. Þannig snýst þessi barátta um að gæta hagsmuna þeirra sem minnst mega sín. Lagabreytingin snýst um að sýna bæði dýrum og mannfólki aukna virðingu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert