„Evru-ríkin misstu af tækifæri“

Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands.
Gordon Brown, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. Reuters

Nicolas Sarkozy og Angela Merkel hafa brugðist rangt við skuldakreppu í evruríkjunum og þau hafa misst af tækifæri til að bregðast við. Þetta segir Gordon Brown fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands í grein í breska dagblaðinu Independent.

Brown segir að aðgerðir franska forsetans og kanslara Þýskalands hafi verið „fyrirsjáanlegar“ og þær geri ekki annað en að auka á vandann.

„Þessu fylgir dýpri efnahagslegur, félagslegur og pólitískur óstöðugleiki svo lengi sem evru-ríkin forðast að taka á stóru málunum,“ segir Brown í greininni.

Brown segir að á síðasta fundi evru-ríkjanna um skuldavandann hafi menn misst af tækifæri og þáttaskil hafi orðið.

„Nú getur enginn símafundur um helgina komið í veg fyrir fjármálafyrirtækja-, þjóðhags- og ríkisfjármálakreppu. Við hana verður ekki tekist án róttækrar endurskipulagningar banka í Evrópu á evru-svæðinu og utan þess. Aðgerðirnar munu nær örugglega kalla á afskipti G2O-ríkjanna og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Þegar Merkel kanslari og Sarkozy forseti náðu í júlí samningum í Brussel sem héldu Grikklandi á floti fól það í sér að menn komu sér undan því að gera það sem var nauðsynlegt í efnahagsmálum vegna þess sem hentaði þeim pólitískt.“

Brown segir að menn hafi í þrjú ár beitt rangri greiningu og því komist að rangri niðurstöðu. Menn hafi talið að vandinn snérist um ríkisfjármálakreppu í veikum ríkjum og að til að eiga við hana þyrfti strangt aðhald og ef það dygði ekki þyrfti enn strangara aðhald.

Brown sagði að vandi Evrópu snerist um mikið atvinnuleysi og það sem hann kallar „áratug sóunar“. Hann sagði að jafnvel núna eftir allt sem gerst hefði á síðustu dögum ættu leiðtogar Evrópu erfitt með að skilja hvernig efnahagsstefna evru-svæðisins kæmi í veg fyrir hagvöxt, hindraði bata og skildi Evrópu eftir illa undirbúna undir alþjóðlega samkeppni.

Grein Brown í Independent

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert