Lögreglumenn vilja vopnast

Kona leggur blóm á lögreglubifreið í Ósló í kjölfar hryðjuverkaárásanna …
Kona leggur blóm á lögreglubifreið í Ósló í kjölfar hryðjuverkaárásanna í borginni í júlí síðastliðnum. Reuters

Samtök norskra lögreglumanna hafa lýst þeirri skoðun sinni að horfa verði til hryðjuverkaárásanna í Noregi í sumar þegar rætt sé um það hvort norskir lögreglumenn eigi að bera vopn að staðaldri.

Öflug sprengja sprakk í miðborg Óslóar 22. júlí síðastliðinn og olli manntjóni og miklum skemmdum á byggingum. Í kjölfarið myrti sá sem bar ábyrgð á sprengingunni, Anders Behring Breivik, tugi ungmenna í eyjunni Útey í nágrenni borgarinnar þar sem sumarbúðir ungliðahreyfingar norska Jafnaðarmannaflokksins voru.

Fram kemur í frétt norska ríkisútvarpsins að umræða um það hvort norskir lögreglumenn eigi að vera vopnaðir við hefðbundin skyldustörf skjóti reglulega upp kollinum í Noregi. Lögfræðingar lögreglunnar séu því mótfallnir á þeim forsendum að þá muni afbrotamenn einfaldlega svara með því að vopnast að sama skapi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert