Skuldum sjálfum okkur frammistöðu í Keflavík

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.
Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur var mjög ánægður með stórsigur sinna manna á Keflavík í þriðja leik undanúrslitaeinvígis liðanna í Íslandsmóti Karla í körfubolta.

Mbl.is ræddi við Jóhann strax eftir leik.

Hvernig þróaðist þessi leikur í þínum huga?

„Mér leið mjög vel með þetta allan tímann. Það sem heldur þeim inni í þessu í fyrri hálfleik eru 14 víti sem þeir setja. Síðan tökum við þennan leik yfir í lok þriðja leikhluta,“ sagði Jóhann.

Keflavík lendir í vandræðum með að skora á löngum köflum í bæði 3. og 4. leikhluta. Var varnarleikurinn ykkar lykill að sigrinum í kvöld?

„Já, mér fannst við mjög góðir varnarlega og pressuðum þá út úr því sem þeir vilja vera í og héldum þeim fyrir framan okkur. Færslurnar voru líka mjög góðar og þegar við finnum taktinn svona varnarlega þá erum við mjög góðir,“ sagði hann.

Þið vinnið þennan leik mjög stórt. Er ekki hættan við að gjörsigra lið að þau spyrni vel til baka í næsta leik og refsi ykkur?

„Mitt lið er það þroskað og ég með það frábæra einstaklinga í mínu liði að ég hef ekki áhyggjur af því.

Við skuldum okkur frammistöðu í Keflavík því við vorum ömurlegir í leiknum þar. Nú er bara endurheimt og þetta klassíska. Við mætum ferskir í leikinn þar,“ sagði Jóhann Þór ákveðinn.

Lykillinn að sigri á Keflavík, er hann að ná góðu forskoti í upphafi leikjanna?

„Varnarlega þurfum við að vera ákafari og með læti. Réttar færslur og þá getum við hlaupið í bakið á þeim.

Þetta eru engin geimvísindi. Ef við höldum þessum takti þá vinnum við á sunnudaginn en það er hægara sagt en gert,“ sagði hann.

Er munurinn á heimavellinum svona mikill eins og úrslit þessara leikja gefa til kynna?

„Nei, ekki fyrir mér. Fyrir mér eru allsstaðar tvær körfur, þrír dómarar og 5 leikmenn í hvoru liði inni á vellinum. Síðan eru sturtur í klefanum og allt þannig að nei alls ekki.

Við þurfum stuðning í leiknum í Keflavík á sunnudag og þá er það bara okkar að mæta og eins og sagt er á fagmálinu „delivera!“,“ sagði Jóhann Þór að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert