Cameron vill læra af Íslandi

Forsætisráðherrar Norður-Evrópuríkjanna á ráðstefnunni Northern Future Forum í Stokkhólmi í …
Forsætisráðherrar Norður-Evrópuríkjanna á ráðstefnunni Northern Future Forum í Stokkhólmi í Svíþjóð. AP

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segir að Bretar geti lært margt af kynjakvótum Noregs og Íslands varðandi hlutfall kynjanna í stjórnum fyrirtækja. Cameron segir að séu kraftar kvenna ekki nýttir til fulls, hafi það neikvæð áhrif á efnahaginn.

Cameron er um þessar mundir á ráðstefnu í Stokkhólmi í Svíþjóð, ásamt forsætisráðherrum annarra Norður-Evrópuríkja. Samkvæmt opinberum tölum tapa Bretar geysiháum fjárhæðum á ójafnri stöðu kynjanna í stjórnum fyrirtækja á hverju ári, eða meira en 40 milljörðum breskra punda. Það samsvarar árlegu framlagi til varnarmála.

Cameron bindur miklar vonir við ráðstefnuna og telur að þar muni hann fá ráðleggingar og hugmyndir um hvernig Bretland geti stutt konur til að verða frumkvöðlar og að jafna hlutföll kynjanna í æðstu stöðum í viðskiptalífinu.

„Allt bendir til þess að það sé jákvæð fylgni á milli fjölda kvenna í áhrifastöðum og velgengni fyrirtækja. Ef við hugum ekki að þessu, þá erum við ekki einungis að bregðast konum, heldur öllu efnahagslífinu,“ sagði Cameron og bætti við að Norðurlönd og Eystrasaltslöndin væru leiðandi á sviði jafnréttis í Evrópu.

Noregur var fyrsta land heims til að innleiða kynjakvóta árið 2003, en þeir fela í sér að hlutfall hvors kyns fyrir sig má ekki fara niður fyrir 40%. Ísland fylgdi fljótlega í kjölfarið, en hér er stefnt að því að hlutfallið verði 40% árið 2013.

Konur eru 15% stjórnenda í 100 stærstu fyrirtækjunum í Bretlandi.

Ráðstefna forsætisráðherra ríkja Norður-Evrópu hófst í gær og henni lýkur í dag. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra tók í morgun þátt í hringborðsumræðum, þar sem aukinn hlutur kvenna í stjórnunarstöðum var ræddur.

Frétt The Telegraph

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert