Þeir efnuðu eru lygarar og þrjótar

Rannsókn sýnir að efnað fólk er líklegra til að brjóta …
Rannsókn sýnir að efnað fólk er líklegra til að brjóta umferðarlög, stela sælgæti frá börnum og ljúga til að öðlast fjárhagslegan ávinning. Arnaldur Halldórsson

Efnað fólk úr efri lögum samfélagsins er líklegra til að brjóta umferðarlög, stela sælgæti frá börnum og ljúga til að öðlast fjárhagslegan ávinning. Þetta er meðal niðurstaðna í nýrri bandarísk/kanadískri rannsókn.

Rannsóknina gerðu sálfræðingar við Berkeley-háskóla í Kaliforníu og háskólann í Toronto. Þar var hegðun fólks rannsökuð með því að setja upp ýmiss konar aðstæður. Til dæmis var algengara meðal ökumanna dýrra bíla að brjóta umferðarlög og þeir stoppuðu síður fyrir gangandi vegfarendum en þeir sem sátu undir stýri á ódýrari bílum.

Í annarri tilraun, þar sem kasta átti teningi í þeim tilgangi að vinna verðlaun, voru þeir efnameiri líklegri til að ljúga til um hversu háa tölu þeir höfðu fengið við kastið.

Að auki voru þeir efnuðu líklegri til að segja ósatt í aðstæðum, þar sem þeir voru í hlutverki vinnuveitanda, sem var að ráða manneskju í starf sem leggja átti niður fljótlega.

Og þegar fólkið fékk sælgætiskrús með þeim tilmælum að innihaldið væri handa börnum, en að það mætti fá sér úr krúsinni ef það vildi, kom í ljós að ríka fólkið tók sér meira sælgæti úr krúsinni en aðrir sem tóku þátt í tilrauninni.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar segir að það að standa vörð um eigin hagsmuni sé meira áberandi eiginleiki í fari hinna efnuðu en annarra og að það geti stuðlað að tilteknu siðleysi. Að auki skipti máli í þessu sambandi að þeir efnameiri séu að öllu jöfnu minna háðir öðru fólki og því séu þeir ekki jafn uppteknir af því hvað öðrum finnist um hegðun þeirra.

„Efnað fólk er meðvitaðra um markmið sín, það lítur jákvæðari augum á græðgi og býr yfir  meiri meðvitund um að það eigi eitthvað tiltekið skilið. Það gæti skýrt það hvers vegna það er skeytingarlausara um áhrif hegðunar sinnar á annað fólk,“ segir í niðurstöðum rannsóknarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert