Biðlar til stjórnarandstöðunnar

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Degi eftir að Írar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu björgunarpakka Evrópusambandsins hvatti Angela Merkel, kanslari Þýskalands, stjórnarandstöðuna í Þýskalandi að gera það sama og staðfesta þessa ráðagerð.

Í ræðu sem hún hélt fyrir framan flokkssystkini fagnaði Merkel niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu Íra og sagði að Þjóðverjar ættu að samþykkja björgunarpakkann formlega fyrir sumarleyfi.

Björgunarpakkinn, sem hefur verið samþykktur af 25 af 27 ESB ríkjum er hannaður til að ná jafnvægi á evru svæðinu með því að setja á refsiákvæði á hendur þeim sem ekki tekst að halda jafnvægi á ríkisreikningum viðkomandi landa. Einungis löndum sem samþykkja björgunarpakkann verður tryggður aðgangur að hinum nýja björgunarsjóði Evrópusambandsins.

Merkel þarf að fá stuðning tveggja þriðju hluta í lægri deild þýska sambandsþingsins til að innleiða ákvæði björgunarpakkans. Það þýðir að hún þarf að minnsta kosti að sannfæra flokk sósial demókrata til að segja já.

„Það er mikilvægt vegna ástandsins á evrusvæðinu sem nú er enn á ný brothætt,“ sagði Merkel.

Yfir 60% samþykktu björgunarpakkann í þjóðaratkvæðagreiðslunni á Írlandi, sem var eina landið sem setti málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert