350 milljónir þjást af þunglyndi

AFP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) segir að rúmlega 350 milljónir þjáist af þunglyndi á heimsvísu. Stofnunin greinir frá þessu í tengslum við alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn sem er á morgun.

„Þetta er ekki sjúkdómur þróuðu ríkjanna. Þetta er alþjóðlegt fyrirbæri. Þetta fyrirfinnst hjá báðum kynjum og í ríkum og fátækum þjóðfélögum,“ segir doktor Shekhar Saxena, yfirmaður geðheilbrigðis- og vímuefnasviðs WHO, á blaðamannafundi í Genf í Sviss.

Hann segir að ekkert svæði í heiminum sé laust við þunglyndi og að um 5% jarðarbúa glími við þunglyndi á ári.

Helmingi fleiri konur en karlar þjást af þunglyndi að sögn Saxena. Hann bætir við að fæðingarþunglyndi herji á eina af hverjum fimm mæðrum, eða eina af hverjum 10 ungum mæðrum í þróuðu ríkjunum.

WHO bendir á að þunglyndi sé alvarlegur sjúkdómur sem hafi áhrif á líf og störf fólks. Alvarlegt þunglyndi getur leitt til sjálfsvígs að sögn Saxena, sem bendir á að skýr fylgni sé þar á milli.

Saxena segir að á hverju ári taki um ein milljón manna eigið líf og að helmingur þeirra glími við þunglyndi. Hann tekur hins vegar fram að þunglyndi sé ekki eina ástæðan fyrir því að fólk fremji sjálfsvíg.

„Þunglyndi hefur verið til í margar aldir, en málið er að við erum ekki að gera neitt í því,“ segir Saxena. Hann bendir á að þar sem ákveðin skömm fylgi sjúkdómnum þá fái aðeins tæpur helmingur þeirra sem þjáist af þunglyndi viðeigandi hjálp. Í sumum löndum fá aðeins tæp 10% nauðsynlega aðstoð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert